Erlent

Óttast áhrif afsagnar Theresu May

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ræða Theresu May er hún tilkynnti um að hún myndi stíga til hliðar var afar tilfinningaþrungin.
Ræða Theresu May er hún tilkynnti um að hún myndi stíga til hliðar var afar tilfinningaþrungin. Vísir/EPA

Væntanleg afsögn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, gæti gert næsta stig útgönguferlis Breta úr Evrópusambandinu afar hættulegt. Þetta sagði Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, í gær.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði að May hefði ekki verið vandamálið í Brexit-málinu. „Hún er hugrökk. Við hvern þann sem tekur við af henni vil ég segja að það verður ekki samið upp á nýtt um útgöngusamninginn.“

May tilkynnti um afsögnina fyrir utan bústað forsætisráðherra í Lundúnum í gær. Hún mun stíga til hliðar sem leiðtogi Íhaldsflokksins þann 7. júní næstkomandi. Vonast er til þess að val á nýjum leiðtoga liggi fyrir í lok júlí.

Ástæðan fyrir afsögninni er Brexit-málið. Tugir ráðherra hafa sagt af sér undanfarin misseri vegna ósættis við stefnu May og ekki er útlit fyrir að þingið samþykki útgöngusamning hennar við ESB í bráð þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Það er langt frá því öruggt að arftaki May geti skilað meiri árangri.

Hinn litríki Boris Johnson þykir líklegastur. Hann barðist fyrir útgöngu í aðdraganda þjóðar­atkvæða­greiðslunnar, annað en May, og hefur barist fyrir „harðari“ útgöngu en May hefur lagt til. Með því er átt við að Bretar fjarlægist Evrópusambandið og haldi meðal annars ekki aðild að tollabandalaginu.

Johnson var staddur á ráðstefnu í Manchester þegar May hélt ræðu sína. Þegar fundarstjóri spurði hann um áform sín svaraði Johnson: „Auðvitað ætla ég að láta á það reyna.“

Núverandi og fyrrverandi ráðherrar á borð við Michael Gove, Amber Rudd, Sajiv Javid, Dominic Raab, Jeremy Hunt, Penny Mord­aunt og Liz Truss eru orðuð við baráttuna sömuleiðis.

Johnson mælist langvinsælastur. Í könnun sem YouGov birti fyrr í mánuðinum mældist hann með 39 prósenta fylgi. Næstur kom Dominic Raab, fyrrverandi útgöngumálaráðherra, með þrettán prósent. Þegar þátttakendur voru spurðir um val á milli þeirra tveggja mældist Johnson með 59 prósent en Raab 41 prósent og var það minnsta bilið á milli Johnsons og annars frambjóðanda.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.