Erlent

Stjórnarandstaðan neitar því að hafa stolið fjárlögum

Kjartan Kjartansson skrifar
Simon Bridges, leiðtogi nýsjálenska Þjóðarflokksins, neitar því að flokkurinn hafi komið nálægt árásum á tölvukerfi stjórnvalda.
Simon Bridges, leiðtogi nýsjálenska Þjóðarflokksins, neitar því að flokkurinn hafi komið nálægt árásum á tölvukerfi stjórnvalda. Vísir/Getty
Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Nýja-Sjálands hafnar því að hann hafi staðið fyrir innbroti í tölvukerfi ríkisstjórnarinnar og stolið þaðan gögnum sem tengjast fjárlögum. Flokkurinn lak upplýsingum um fjárlögin áður en þau verða birt og segist hafa komist yfir þær á löglegan hátt.

Fjármálaráðuneytið segist hafa kært tölvuinnbrotið til lögreglunnar. Innbrotið hafi verið skipulagt og að yfirlögðu ráði. Um tvö þúsund árásir hafi verið gerðar á tölvukerfið á 48 klukkustundum. Ráðuneytið hefur ekki bendlað neinn við árásina.

Þjóðarflokkurinn, helsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, birti upplýsingar um fjárlög ríkisstjórnarinnar í gær en til stendur að þau verði birt opinberlega á morgun. Flokkurinn sagði „ekkert innihald“ í fjárlögunum.

Simon Bridges, leiðtogi Þjóðarflokksins, sakaði Jacindu Ardern, forsætisráðherra, um „nornaveiðar“ til að draga athyglina frá vandræðagangi hennar, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Það hefur ekki verið neitt tölvuinnbrot í neinum skilningi þess orðs. Þjóðarflokkurinn hefur hegðað sér á algerlega viðeigandi hátt alla leið. Það hefur ekkert ólöglegt gerst eða neitt sem nálgast það einu sinni,“ sagði Bridges.

Ardern segir á móti að enginn hafi bendlað Þjóðarflokkinn við innbrotið. Ríkisstjórn hennar segir að sumt af því sem Þjóðarflokkurinn birti um fjárlögin sé ekki á rökum reist. Fjárlögunum hefur verið lýst sem „velferðarfjárlögum“ með áherslu á geðheilsu, fátækt barna og heimilisofbeldi umfram hagvöxt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×