Íslenski boltinn

Dr. Viðar kemur inn í þjálfarateymið: „Vil hjálpa liðinu að verða besta útgáfan af sjálfu sér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar á blaðamannafundinum í dag.
Viðar á blaðamannafundinum í dag. vísir/vilhelm
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, tilkynnti ekki bara hópinn fyrir leikina tvo gegn Finnlandi á blaðamannafundi í dag heldur einnig nýjustu viðbótina við þjálfarateymi landsliðsins.

Það er Dr. Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði, sem mun vinna með landsliðinu næstu mánuðina. Viðar hefur í mörg ár unnið með ýmsum íþróttaliðum, bæði félags- og landsliðum.

„Mitt hlutverk er að vera til staðar og hjálpa leikmönnum og starfsfólki að takast á við þetta verkefni. Það er löng vegferð að ná árangri í íþróttunum og margt getur komið upp á. Ég hef bakgrunn í félagsfræði og einhvern í sálfræði og vinn með þessa hluti,“ sagði Viðar í samtali við Vísi í dag.

„Ég hjálpa til við að skapa umhverfi þar sem leikmenn njóta sín, metnaður er til staðar og liðið getur orðið besta útgáfan af sjálfu sér. Ég hjálpa til við að virkja þessi öfl.“

Eins og áður sagði hefur Viðar mikla reynslu af því að starfa með íþróttaliðum.

„Ég hef unnið bak við tjöldin hjá ýmsum liðum í fótbolta, handbolta, körfubolta og fimleikum í 17-18 ár og hef komið að liðum á öllum stigum. Það er mjög gaman að vinna með afreksfólki eins og kvennalandsliðinu í fótbolta. Þetta er spennandi verkefni,“ sagði Viðar.

Þeir Jón Þór þekkjast vel en þeir unnu saman hjá ÍA á sínum tíma.

„Ég hef mikla trú á Jóni Þór. Hann er mjög klókur þjálfari og flottur í alla staði. Ég er spenntur fyrir að vinna aftur með honum sem og öðrum í teyminu,“ sagði Viðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×