Innlent

Öryggi eykst í Ölfusi þegar fyrsta áfanga lýkur í haust

Kristján Már Unnarsson skrifar
Umferðinni er núna beint framhjá kaflanum sem verið er að breikka.
Umferðinni er núna beint framhjá kaflanum sem verið er að breikka. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss er komin vel á veg og stefnt að því að fyrsta áfanga ljúki í haust. Skammt austan Hveragerðis er umferð á hringveginum núna beint tímabundið um nýjan innansveitarveg. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Fyrsti áfanginn er breikkun tveggja og hálfs kílómetra kafla milli Varmár og Gljúfurholtsár auk lagningar nýrra hliðarvega til að fækka gatnamótum úr sveitinni.

Ágúst Jakob Ólafsson, verkstjóri hjá ÍAV.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Um þrjátíu starfsmenn Íslenskra aðalverktaka hófu verkið um síðustu áramót og miðar vel, að sögn verkstjórans, Ágústs Jakobs Ólafssonar. Þeir séu í sumum verkþáttum á eftir áætlun en verði á endanum á réttum tíma. 

Vegagerð ofan í fjölförnum hringveginum getur þó verið vandasöm, eins og hér í Ölfusi. Umferðin trufli vinnuna aðeins, eins og þegar þurfi að þvera veginn til að sækja efni, segir Ágúst.

Vegarkaflinn er skammt austan við Hveragerði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Og núna er byrjað að breikka sjálfan hringveginn í tveir plús einn veg. Á meðan þarf að beina umferðinni annað. Hún er núna sett á svokallaðan Ölfusveg, sem verður nýr innansveitarvegur. 

Myndband frá Vegagerðinni sýnir hvernig hringvegurinn um Ölfus kemur til með að líta út þegar heildarverkinu lýkur, væntanlega árið 2022. Þessum fyrsta áfanga á hins vegar að ljúka í haust og þá finna vegfarendur muninn, eins og verkstjórinn lýsir í viðtalinu í frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.