Enski boltinn

Fyrrum landsliðskona: Kynferðislega áreitt á netinu á hverjum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Scott.
Alex Scott. Vísir/Getty
Alex Scott átti flottan knattspyrnuferil á sínum tíma og núna er hún að ryðja brautina fyrir konur í heimi knattspyrnusérfræðinga í ensku sjónvarpi. Það hefur hins vegar ekki verið auðvelt fyrir hana að vera í sviðsljósinu.

Alex Scott hefur sagt frá því að hún verði fyrir kynferðislegu áreiti á hverjum degi á samfélagsmiðlum eftir að hún tók að sér vera knattspyrnusérfræðingur í sjónvarpinu.

Scott var meðal annars hluti af sjónvarpsteymi breska ríkisútvarpsins á HM í Rússlandi sumarið 2018.





Alex Scott lagði skóna á hilluna árið 2017 en hún lék á sínum tíma 140 leiki fyrir enska landsliðið og varð sex sinnum Englandsmeistari með Arsenal auk þess að vinna enska bikarinn sjö sinnum á ferlinum.

Scott er núna 34 ára gömul og það hefur ekki verið auðvelt fyrir hana að glíma við áreitið á netmiðlum. Hún ætlar samt ekki að leyfa nettröllunum að vinna með því að hætta á samfélagsmiðlum.

„Við munum einhvern tímann komast á það stig að ég verði bara knattspyrnusérfræðingur en ekki kona sem er knattspyrnusérfræðingur,“ sagði Alex Scott við BBC.

„Þegar við náum því marki þá erum við fyrst að komast eitthvað áfram. Ég, með því að sitja þarna og vera nógu sterk til að segja mína skoðun, mun gera mitt í að hjálpa til að gera þetta að venjulegum hlut að kona sé knattspyrnusérfræðingur,“ sagði Scott.





Alex Scott fór á þrjú heimsmeistaramóti og fjögur Evrópumeistaramót með enska landsliðinu en hún spilaði í vörninni.

„Allir geta séð Twitter. Ég er kynferðislega áreitt á hverjum degi núna. Það sem heldur mér gangandi er að mér finnst ég vera að hjálpa til að breyta hugsunum fólks. Fólk kemur líka upp að mér í dag og segir mér það,“ sagði Alex Scott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×