Enski boltinn

Van Dijk: Allir eru að tala um Brighton en við þurfum að einbeita okkur að Wolves

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Dijk á æfingu Liverpool í gær.
Van Dijk á æfingu Liverpool í gær. vísir/getty
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, segir að liðið eigi enn möguleika á titlinum en þurfi að einbeita sér að sínu verkefni á morgun en ekki hvað gerist hjá City.

City er með tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar fyrir síðustu umferðina. Liverpool spilar á heimavelli gegn Wolves en City spilar á útivelli gegn Brighton.

„Þetta er hægt en þú verður að vera raunsær. Eins og City hefur verið að spila á leiktíðinni þá reikna allir með því að þeir vinni,“ sagði Hollendingurinn í samtali við Sky Sports.

„En þú veist aldrei og það eina sem við getum gert er að reyna vinna Wolves því það er stórt verkefni. Allir eru að tala um Brighton en við þurfum að vinna Wolves sem hafa verið frábærir og eru erfiðir við að eiga.“

Wolves hafa verið duglegir við að stríða stóru liðunum í vetur og miðvörðurinn segir að Liverpool þurfi að einbeita sér að sínu verkefni.

„Það er ástæða fyrir því að þeir eru á þessum stað í deildinni. En við erum á heimavelli og þetta er síðasti deildarleikurinn og við munum gefa allt sem við eigum.“

„Ef við vinnum þá höfum við gert okkar og svo munum við sjá hvað gerist í Brighton,“ sagði þessi ógnarsterki miðvörður að lokum.

Báðir leikirnir eru í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×