Erlent

Blússandi sigling á Farage

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Farage gengur vel.
Farage gengur vel. Nordicphotos/AFP
Allt útlit er fyrir að hinn háværi íhaldsmaður og Brexit-sinni Nigel Farage muni standa uppi sem sigurvegari Evrópuþings­kosninganna sem fara fram í Bretlandi þann 23. maí. Þótt Bretar séu á útleið úr Evrópusambandinu verða þeir að taka þátt í kosningunum vegna tafa á útgönguferlinu.

Farage var einn helsti hvatamaður Brexit og barðist fyrir útgöngu þegar hann var formaður Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP). Hann stofnaði hins vegar nýjan flokk, Brexitflokkinn, fyrir komandi kosningar vegna ósættis við öfgafyllstu UKIP-liðana og það hvernig Íhaldsflokkurinn hefur haldið á spilunum í útgöngumálinu.

Hinn nýi flokkur mældist með 29 prósenta fylgi fyrir Evrópuþings­kosningarnar sem Opinium birti í gær. Til samanburðar mældist Verkamannaflokkurinn með 26 prósent, Íhaldsflokkurinn fjórtán og UKIP, sem fékk flest atkvæði síðast, einungis fjögur prósent.

Farage sagði við The Guardian í gær að vinni Brexitflokkurinn kosningarnar þýði það að möguleikinn á samningslausri útgöngu sé aftur kominn á borðið. Breska þingið hefur hafnað þeim möguleika, sem og reyndar öllum öðrum.

„Bretar hafa nú frest fram til 31. október og við viljum tryggja, kjósendur vilja að við tryggjum, að samningslaus útganga sé tekin til alvarlegrar umhugsunar,“ sagði Farage.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×