Erlent

Leik- og söngkonan Doris Day látin

Kjartan Kjartansson skrifar
Doris Day þegar hún hlaut Cecil B. DeMille-verðlaunin á Golden Globe-hátíðinni árið 1989.
Doris Day þegar hún hlaut Cecil B. DeMille-verðlaunin á Golden Globe-hátíðinni árið 1989. Vísir/AP
Bandaríska leik- og söngkonan Doris Day er látin, 97 ára að aldri. Day var þekktust fyrir fjölda söngleikja og rómantískra gamanmynda auk söngferilsins. Hún var einnig þekkt baráttukona fyrir velferð dýra.

Dýraverndunarsjóður Doris Day staðfesti andlát hennar, að sögn AP-fréttastofunnar. Day var af þýskum ættum og hét raunverulegu nafni Doris Mary Ann Kappelhoff. Hún var fædd í Cincinnatti í Ohio 3. apríl árið 1922.

Day braust til frægar á stríðsárunum og var orðin launahæsta söngkona heims við lok seinna stríðs, að sögn The Guardian. Hún hóf kvikmyndaleik árið 1948 í söngleiknum „Rómantík á úthöfunum“. Í kjölfarið lék hún í fleiri söngleikjamyndum eins og „Te fyrir tvo“ og „Minn draumur er þinn“. Þá naut hún vinsælda fyrir hlutverk Ógæfu-Jane í samnefndri kvikmynd sem varð síðar að söngleik og sjónvarpsþáttum [e. Calamity Jane].

Síðar lék hún í mynd leikstjórans Alfreds Hitchcock „Maðurinn sem vissi of mikið“. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í gamanmyndinni „Koddahjali“ árið 1959.

Á áttunda áratugnum einbeitti Day sér að baráttu fyrir velferð dýra og stofnaði sjóðinn sem er kenndur við hana. Hún hlaut frelsisorðu Bandaríkjaforseta árið 2004.

Day var fjórgift. Eina afkomandann átti hún með fyrsta eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Al Jorden. Sonur hennar Terry Melcher, tónlistarframleiðandi, lést árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×