Enski boltinn

Mata bloggar með óbragð í munni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Juan Mata svekktur í lok leiktíðar.
Juan Mata svekktur í lok leiktíðar. vísir/getty
Juan Mata, leikmaður Manchester United, segist vera með óbragð í munni eftir 2-0 tapið gegn Cardiff í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn en það var versta leiðin til enda annars dapurt tímabil.

Eftir hamingjuríka daga í fyrstu leikjum Ole Gunnar Solskjær fór allt í skrúfuna og vann liðið aðeins tvo af síðustu tólf leikjum sínum. Það endaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og komst ekki lengra en í átta liða úrslitin í öllum bikarkeppnum.

Mata er sagður vera í viðræðum við Barcelona og á leiðinni á nývang þegar að samningur hans rennur út í sumar en hann settist við lyklaborðið og fór aðeins yfir tímabilið á vinsælu bloggi sínu.

„Tapið í lokaumferðinni var versta leiðin til að klára tímabilið. Þetta er ekki búið að vera gott tímabil fyrir nokkurn mann sem að tengist Manchester United-fjölskyldunni,“ segir Mata.

„Það hafa verið góðar stundir inn á milli sem þarf að muna eftir en á endanum skilur maður við þetta tímabil með óbragð í munni.“

„Enginn af okkur er ánægður með frammistöðuna. Þegar að við vinnum þá gerum við það saman og sama á við þegar að við töpum. Nú þurfum við að greina hvað fór úrskeiðis því þetta félag á skilið að vera í betri stöðu,“ segir Juan Mata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×