Enski boltinn

Bolton getur ekki borgað laun en setti á fót matarsöfnun

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bolton hefur séð sælli daga
Bolton hefur séð sælli daga vísir/getty

Veturinn hefur verið erfiður fyrir Bolton Wanderers, innan sem utan vallar. Starfsfólk félagsins hefur ekki fengið greidd laun fyrir vinnu í aprílmánuði og nú hefur félagið sett upp matarsöfnun fyrir starfsfólk sitt.

Bolton féll niður í ensku C-deildina í vor og hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum í vetur. Ásamt því að starfsfólk hafi ekki fengið greitt hafa leikmenn liðsins heldur ekki fengið borgað, hvorki fyrir mars né apríl.

Í samstarfi við fyrirtæki í nágrenninu hefur Bolton sett upp matarbanka fyrir starfsfólk sitt þar sem mátti nálgast, pasta, dósamat, hrísgrjón, frosnar máltíðir og hreinlætisvörur.

„Það er mikill misskilningur að allir innan fótboltans séu á kóngalaunum. Mikið af starfsfólkinu á bak við tjöldin er á mjög lágum launum,“ sagði Phil Mason, talsmaður Bolton.

„Starfsfólkið þarf að borga af húslánum eða leigu, það þarf að bera mat á borðið fyrir fjölskyldur sínar og komast í og frá vinnu.“

Þá hefur samfélagssjóði félagsins borist aðstoð frá öðru félagi, sem ekki hefur verið opinberlega nefnt en BBC segir líklega vera Preston North End.

„Það er gríðarlega ánægjulegt að við höfum fengið aðstoð frá félagi í Championshipdeildinni,“ sagði Mason. „Félagið gaf okkur stóra upphæð í formi afsláttarmiða í Asda og Sainsbury's [breskar matvöruverslanir] og við getum notað þá í að nálgast meiri birgðir í matarbankann fyrir starfsfólkið.“


Tengdar fréttir

Leik Bolton aflýst vegna verkfalls leikmanna

Bolton Wanderers getur ekki stillt upp liði í næstsíðustu umferð ensku B-deildarinnar þar sem leikmenn liðsins neita að mæta í leikinn vegna vangoldinna launa.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.