Enski boltinn

Leik Bolton aflýst vegna verkfalls leikmanna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Það verður ekki spilaður fótbolti þarna í dag
Það verður ekki spilaður fótbolti þarna í dag vísir/getty
Búið er að aflýsa leik Bolton Wanderers og Brentford í næstsíðustu umferð ensku B-deildarinnar í fótbolta þar sem leikmenn Bolton eru í verkfalli vegna vangoldinna launa en leikmenn liðsins hafa ekki fengið greidd laun síðan í byrjun marsmánaðar.

Bolton er fallið úr deildinni og í gær óskuðu forráðamenn félagsins eftir því að félagið fengi að gefa síðustu tvo leikina en þeirri beiðni var hafnað af stjórn deildarinnar.

Þrátt fyrir það neita leikmenn liðsins að mæta í leikinn og hefur honum því verið aflýst en í yfirlýsingu deildarinnar segir að Bolton eigi von á sekt fyrir að mæta ekki til leiks.

Félagið hefur átt í miklum erfiðleikum í vetur en sjö ár eru síðan liðið lék síðast í ensku úrvalsdeildinni og hafa íslenskir leikmenn á borð við Guðna Bergsson, Arnar Gunnlaugsson og Eið Smára Guðjohnsen leikið fyrir Bolton.


Tengdar fréttir

Leikmenn Bolton farnir í verkfall

Leikmennn og starfsmenn enska b-deildarfélagsins Bolton Wanderers fengu ekki útborgað í dag og leikmennirnir hafa ákveðið að mótmæla með því að fara í verkfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×