Erlent

Boeing lýkur við upp­færslu á hug­búnaði 737 MAX vélanna

Atli Ísleifsson skrifar
Boeing 737 MAX vélarnar voru allar kyrrsettar í mars síðastliðinn.
Boeing 737 MAX vélarnar voru allar kyrrsettar í mars síðastliðinn. Getty

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur lokið við þróun á hugbúnaðaruppfærslu 737 MAX vélanna. Boeing greindi frá þessu í fréttatilkynningu fyrr í dag.

Boeing hyggst nú vinna með fulltrúum bandarískra flugmálayfirvalda með að skipuleggja tilraunaflug og fá tilskilin leyfi þannig að aftur verði hægt að taka vélarnar í notkun. Í yfirlýsingunni segir ennfremur að Boeing vinni einnig að því að veita frekari upplýsingar til bandarískra flugmálayfirvalda um hvernig flugstjórar skuli notast við búnað í mismunandi aðstæðum.

Boeing 737 MAX vélarnar voru allar kyrrsettar í kjölfar þess að slík vél Ethiopian Airlines hrapaði í mars, innan við hálfu ári eftir að vél Lion Air af sömu gerð hrapaði í Indónesíu. Alls fórust 346 manns í slysunum.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Dennis Muilenburg, framkvæmdastjóra Boeing, að með nýjum og uppfærðum hugbúnaði verði Boeing 737 MAX vélarnar einar af öruggustu vélum flugsögunnar.

Eftir flugslysin í Indónesíu og Eþíópíu beindust böndin að sjálfstýringarhugbúnaði vélanna þar sem vísbendingar voru um að hugbúnaður sem á að koma í veg fyrir ofris hafi stýrt flugvélunum niður á við þannig að þær hröpuðu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.