Erlent

Hægri og vinstri gætu unnið saman til að útiloka hægriöfgaflokka

Kjartan Kjartansson skrifar
Rasmussen var spurður út í stjórnarmynstur eftir kosningar á blaðamannafundi í tengslum við útkomu bókar.
Rasmussen var spurður út í stjórnarmynstur eftir kosningar á blaðamannafundi í tengslum við útkomu bókar. Vísir/EPA
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, segist opinn fyrir ríkisstjórnarsamstarfi við Sósíaldemókrata eftir þingkosningar sem fara fram í byrjun júní til að koma í veg fyrir að hægriöfgaflokkar komist til áhrifa.

Kosið verður í Danmörku miðvikudaginn 5. júní. Skoðanakannanir hafa ekki verið Vinstri, hægriflokknum sem Rasmussen leiðir, hagfelldar að undanförnu. Þess í stað benda kannanir til þess að Sósíaldemókrataflokkur Mette Frederiksen gæti myndað ríkisstjórn eftir kosningar.

Rasmussen vísar nú til uppgangs hægriöfgaflokksins Harðlínu sem boðar kynþáttahyggju sem ástæðu fyrir að vinna þvert yfir miðjuna með sósíaldemókrötum. Hann vilji ekki vera upp á stuðning slíkra afla kominn og það gefi auga leið að styttra sé á milli Vinstri og Sósíaldemókrata en Vinstri og öfgahægrisins, að því er segir í frétt danska ríkisútvarpsins.

„Ef ég á aðeins möguleika að verða forsætisráðherra með hjálp öfgahægrisins kýs ég heldur samstarf yfir miðjuna en að láta jaðarinn rífa sameiginlegar undirstöður okkar niður,“ segir Rasmussen.

Í viðtali vildi hann ekki svara því hvort hann væri tilbúinn að gera Frederiksen að forsætisráðherra eftir kosningar.


Tengdar fréttir

Kosið í Danmörku 5. júní

Forsætisráðherrann tilkynnti um kjördag í ræðu á danska þinginu í dag. Skoðanakannanir benda til þess að miðhægristjórn hans gæti fallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×