Enski boltinn

Carragher: Liverpool ætti að fá Coutinho aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Coutinho náði sér ekki á strik þegar Barcelona steinlá fyrir Liverpool, 4-0, á Anfield.
Coutinho náði sér ekki á strik þegar Barcelona steinlá fyrir Liverpool, 4-0, á Anfield. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir að Bítlaborgarfélagið ætti að fá Philippe Coutinho aftur ef tækifæri gefst til.

Liverpool seldi Coutinho til Barcelona fyrir 142 milljónir punda í janúar 2018. Brassinn hefur átt erfitt uppdráttar hjá Barcelona og gæti verið á förum frá félaginu.

Carragher segir að það gæti verið sterkur leikur hjá Liverpool að fá Coutinho aftur.

„Ég er ekki að segja að þeir ættu að gera allt til að ná í hann. En ef Barcelona vill losna við hann og það væri möguleiki að fá hann fyrir sanngjarnt verð myndi ég gera það,“ sagði Carragher.

Stuðningsmenn Liverpool létu Coutinho heyra það þegar Barcelona tapaði 4-0 fyrir Liverpool á Anfield í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrr í mánuðinum. Carragher segir að stuðningsmennirnir ættu að taka Coutinho með opnum örmum, komi hann aftur til félagsins.

„Yrði hann velkominn aftur? Ég er ekki viss en hann ætti að vera það. Ég sé enga ástæðu að svo ætti ekki að vera. Ég veit að hann fékk aðeins á baukinn um daginn en það var vegna þess að hann vildi fara frá Liverpool,“ sagði Carragher.

Liverpool, sem endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, mætir Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd 1. júní.


Tengdar fréttir

Guardiola bað Liverpool fólk afsökunar

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, hefur beðist afsökunar á framkomu leikmanna sinna og starfsmanna eftir sigurinn í ensku deildinni um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×