Enski boltinn

Verður erfitt að fá leikmenn Tottenham og Liverpool til þess að spila saman

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsþjálfari Englendinga segir það verða erfitt verkefni að fá leikmenn Tottenham og Liverpool til þess að spila saman í enska landsliðinu stuttu eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni.

Tottenham og Liverpool munu keppa um stærsta titil Evrópu, og þar með líklega heimsins í félagsliðabolta, 1. júní þegar þau mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

England keppir til úrslita í Þjóðadeild Evrópu í júní, undanúrslitaleikur Hollands og Englands fer fram 6. júní.

Gareth Southgate valdi sex Tottenham leikmenn og þrjá frá Liverpool í 27 manna landsliðshóp, en hann mun þurfa að skera niður í 23 fyrir lok maí.

„Þetta mun reyna á stjórnunarhæfileika okkar og liðsandann í heildina. Það verður gríðarleg áskorun fyrir þá að keppa við hvorn annan, en loka svo hurðinni á þann leik og muna að í enska landsliðinu erum við liðsheild sem styður hvorn annan,“ sagði Southgate.

Ef hann heldur leikmönnum úr báðum liðum inn í lokahópnum, sem er mjög líklegt nema einhver meiðsli verði, þá munu einhverjir leikmenn koma mjög vonsviknir úr úrslitaleiknum en aðrir í sjöunda himni.

„Þetta verður í fyrsta skipti sem ég hef upplifað þetta. Í fyrra komu Jordan [Henderson] og Trent [Alexander-Arnold] með mikil vonbrigði á bakinu inn í hópinn og það var erfitt fyrir þá.“

„Við munum fá einhvern inn með það hugarfar því miður og þetta er mjög einstök staða. Spænsku landsliðsþjálfarnir munu hafa upplifað þetta nokkrum sinnum síðustu ár og einhverjir aðrir líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×