Íslenski boltinn

Einar Logi: „Þetta verður ekki sætara“

Árni Jóhannsson skrifar
Skagamenn eru eina taplausa liðið eftir fimm umferðir í Pepsi Max deildinni
Skagamenn eru eina taplausa liðið eftir fimm umferðir í Pepsi Max deildinni vísir/daníel
 Einar Logi Einarsson var hetja Skagamanna gegn Breiðabliki í toppslagnum í Pepsi Max deild karla á Kópavogsvelli. Einar skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

„Þetta var kannski bölvuð heppni á staðsetningunni hjá mér en boltinn dettur fyrir lappirnar á Stebba [Stefán Teitur Þórðarson] sem neglir honum í átt að markinu og ég bara set fótinn í hann og boltinn endar út í horni. Þetta er bara geggjað“, sagði hetja Skagamanna þegar hann var beðinn um að lýsa markinu sem tryggði þeim gulklæddu sigurinn á Breiðablik í fimmtu umferð Pepsi Max deildarinnar í kvöld. Markið kom á 94. mínútu leiksins eða alveg í blálokin.

Leikurinn var lengst af í járnum en allt benti til þess að leikar myndu enda 0-0. Einar var því mjög sáttur við útkomuna.

„Já við tökum þetta heldur betur. Þetta verður ekki sætara“.

Hann var að lokum spurður hversu hátt Skagamenn væru komnir og hvað væri að skila þessari geggjuðu byrjun þeirra.

„Það er náttúrlega mikil vinna að baki, liðsheildin er geggjuð og við erum að berjast til seinasta blóðdropa. Við erum þéttir og vitum að við getum varist í 90 mínútur eins og við sýndum í dag. Þeir fengu ekki mörg færi í dag og svo fáum við svona heppnismark en það þarf ekki mikið meira en það“.

„Svo er það bara að vinna næst leik. Það er bara einn leikur í einu. Það er ekki flóknara en það, við getum farið inn í alla leiki til að vinna þá og við erum búnir að sýna það“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×