Enski boltinn

Guardiola: Liverpool í ár erfiðasti andstæðingurinn á ferlinum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pep Guardiola
Pep Guardiola vísir/getty
Liverpool á þessu tímabili er erfiðasti andstæðingur sem Pep Guardiola hefur keppt við í deildarkeppni nokkru sinni á ferlinum.

Titilbaráttan í ensku úrvalsdeildinni hefur verið mjög spennandi í vetur og hefur sjaldan verið jafn spennandi á lokametrunum, en aðeins einu stigi munar á liðunum þegar tveir leikir eru eftir.

„Í deildarkeppni, já, þá er þetta erfiðasti andstæðingurinn. Það er alltaf erfitt að vinna deildarkeppni en þessi hefur verið einstaklega erfið,“ sagði Guardiola við Sky Sports.

Ef City vinnur þá tvo leiki sem liðið á eftir enda þeir með 98 stig. Á síðasta ári unnu þeir deildina með 100 stig, sem er met í ensku úrvalsdeildinni.

„Eftir að koma frá 100 stigum á síðasta tímabili og halda þessu áfram í vetur, það er erfitt fyrir íþróttamenn að ná að halda þessum staðli í svo langan tíma og við höfum gert það aftur.“

City getur varið Englandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins, en ef það gerist þá færi Guardiola strax að hugsa um næsta titil.

„Ef ég sit bara og minnist þess sem ég hef gert, þá mun ég hætta um leið. Svona er íþróttin, fólkið sem kom á Etihad völlinn í vetur kom ekki til að minnast þess sem gerðist í fyrra, það er farið.“

Manchester City mætir Leicester á mánudagskvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×