Enski boltinn

De Gea verður í markinu gegn Huddersfield

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
David de Gea hefur verið valinn besti leikmaður United síðustu tímabil
David de Gea hefur verið valinn besti leikmaður United síðustu tímabil vísir/getty
David de Gea mun standa í marki Manchester United á móti Huddersfield þrátt fyrir mistök í síðustu leikjum.

Spánverjinn hefur legið undir mikilli gagnrýni síðustu vikur og hafa margir sérfræðingar sagt að Ole Gunnar Solskjær eigi að setja markvörðinn á bekkinn.

Varamarkvörður United, Sergio Romero, meiddist hins vegar á æfingu á fimmtudag og getur ekki spilað um helgina.

„David hefur æft vel í vikunni og hann mun spila,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi.

Í síðustu fjórum leikjum hefur de Gea gert þrjú mistök sem leiddu til þess að andstæðingurinn skoraði mark. Í síðustu 123 leikjum á undan því gerði hann samtals þrjú mistök sem leiddu til marks.

„David hefur verið frábær á tímabilinu. Undir lokin hefur hann verið í fyrirsögnunum af röngum ástæðum en hann þarf að eiga við það. Markvarðarstaðan hefur átt betri tíma en þá sem við erum að ganga í gegnum núna en hann er tilbúinn í sunnudaginn.“

„Hann vill sanna hversu góður markmaður hann er. Frammistaða hans síðustu ár, David hefur fullt traust frá mér.“

United þarf að vinna Huddersfield til þess að eiga möguleika á fjórða sætinu í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×