Enski boltinn

„Tilfinningarnar skella á eftir leikinn“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson spilar í dag sinn síðasta heimaleik fyrir Cardiff City eftir átta ár hjá félaginu.

Aron Einar er sá leikmaður í hópi Cardiff í dag sem hefur verið lengst hjá félaginu. Hann á 284 leiki að baki fyrir liðið og skorað 25 mörk, meira en nokkur annar í leikmannahópnum.

Á tíma Arons hjá Cardiff hefur liðið tvisvar farið upp í úrvalsdeild og einu sinni náð í bikarúrslitaleik. Hann skrifaði sig líka í sögubækur Cardiff þegar hann skoraði fyrsta úrvalsdeildarmark í sögu félagsins.

„Ég held að tilfinningarnar skelli á eftir leikinn,“ sagði Aron í viðtali við heimasíðu Cardiff.

„Við höfum gengið í gegnum ýmislegt, ég og stuðningsmennirnir. Það hafa verið góðir og slæmir tímar, eins og gerist í fótboltanum. Við höfum gengið í gegnum allan tilfinningaskalann.“

„Ég er svo einbeittur á leikinn að ég læt þetta ekki hafa áhrif á mig fyrr en lokaflautið gellur.“

„Þetta hafa verið átta góð ár, ég er búinn að vera meirihluta ferilsins hér og ég naut hverrar mínútu,“ sagði Aron Einar en allt viðtalið má lesa hér.

Cardiff tekur á móti Crystal Palace í leik sem liðið verður að vinna til þess að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 16:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×