Enski boltinn

Guardiola: Enska deildin er sú erfiðasta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola er tveimur sigrum frá titlinum.
Pep Guardiola er tveimur sigrum frá titlinum. vísir/getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er á því að enska úrvalsdeildin sé sú erfiðasta í heimi en hann er tveimur sigrum frá því að vinna hana annað árið í röð.

Stuðningsmenn City og Liverpool verða límdir við skjáinn í kvöld þegar að City mætir Leicester á heimavelli en þar getur Brendan Rodgers, fyrrverandi stjóri Liverpool, hjálpað sínum gömlu lærisveinum.

City endurheimtir toppsætið með sigri og getur svo tryggt sér annan Englandsmeistaratitilinn í röð um næstu helgi ef að liðið leggur Brighton að velli.

„Þegar kemur að gæðum allra liðanna er enska deildin sú besta. Það er engin spurning. Þess vegna er svo magnað að vera á toppnum hérna,“ segir Guardiola.

„Aðeins annað liðið er að fara að klára þetta og hitt verður skilið eftir í sárum,“ segir Guardiola sem er mjög ánægður með árangurinn á þessu tímabili eftir að komast í 100 stigin í fyrra.

„Að vera með 92 stig á þessum tímapunkti með tvo leiki eftir þegar að við náðum 100 stigum í fyrra er algjörlega magnað. Þetta er það besta sem ég hef upplifað á ferlinum. Þetta er ekki auðvelt og það eru leikmennirnir sem eiga skilið hrósið,“ segir Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×