Erlent

Ung kona lést úr hundaæði í Noregi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan lést í faðmi fjölskyldu sinnar á sjúkrahúsinu í Førde.
Konan lést í faðmi fjölskyldu sinnar á sjúkrahúsinu í Førde. Vísir/getty
Tvítug kona lést úr hundaæði á sjúkrahúsi í Førde í vesturhluta Noregs í gærkvöldi. Konan var bitin af hundi þegar hún var á ferðalagi um Suðaustur-Asíu fyrir tveimur mánuðum og veiktist heiftarlega í kjölfarið.

Í frétt NRK segir að sjúkrahúsið hafi fengið upplýsingar um hundinn í síðustu viku og á laugardag var staðfest að konan væri smituð af hundaæði.

Konan var á ferð með samlöndum sínum sem eru nú undir eftirliti á heilsugæslustöðvum í heimahéruðum sínum. Þetta er í fyrsta sinn í rúm 200 ár sem sjúklingur greinist með hundaæði á meginlandi Noregs, að því er segir í frétt NRK.

Hundaæði er banvænn sjúkdómur sem orsakast af veirum sem sennilega eiga uppruna sinn í leðurblökum en geta sýkt mörg önnur spendýr sem geta borið hann til manna, s.s. refi, hunda og ketti. Veiran finnst í líkamsvessum og vefjum smitaðra dýra og dæmi eru til um smit við bit. Sjúkdóminn er ekki að finna á Íslandi og fleiri eyríkjum en hann fyrirfinnst í öllum heimsálfum, að því er segir á vef Landlæknisembættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×