Íslenski boltinn

Þurfum að fara sautján ár aftur í tímann til að finna svona byrjun á Íslandsmótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson skorar hér jöfnunarmark FH-inga í gær.
Halldór Orri Björnsson skorar hér jöfnunarmark FH-inga í gær. Vísir/Vilhelm
Það er þröngt á þingi á toppnum í Pepsi Max deild karla í fótbolta eftir fyrstu tvær umferðirnar en annarri umferðinni lauk í gær.

Fimm lið eru með fjögur stig en ekkert lið er með fullt hús stiga. Öll lið nema ÍBV hafa fengið stig.

FH varð síðasta sigurliðið frá því í fyrstu umferð til að tapa stigum en liðið gerði 1-1 jafntefli við Víkinga. Áður höfðu Breiðablik, Fylkir og ÍA öll gert jafntefli í annarri umferðinni en þau unnu leiki sína í fyrstu umferðinni eins og FH.

Þetta þýðir að öll tólf lið Pepsi Max deildarinnar hafa tapað stigum í fyrstu tveimur umferðunum.

Þetta hefur aldrei gerst áður í tólf liða deild (frá 2008) og það þarf að fara allt til ársins 2002 til að finna Íslandsmót þar sem ekkert lið er með 6 stig eða fullt hús stiga eftir tvær umferðir.

Við erum því að tala um að það séu sautján ár síðan Íslandsmótið byrjaði svona jafnt síðast.

Sumarið 2002 voru fjögur lið jöfn með fjögur stig eða Fylkir, KR, Þór Akureyri og Keflavík. KR varð Íslandsmeistari um haustið en Fylkir endaði í öðru sæti. Þór og Keflavík féllu hins vegar bæði.

Nú eru fimm lið jöfn á toppnum með fjögur stig eða Fylkir, KR, ÍA, Breiðablik og FH. Tvö til viðbótar hafa heldur ekki tapað stigum en Stjarnan og Víkingur hafa gert jafntefli í báðum sínum leikjum.

Hér fyrir neðan má sjá liðin sem hafa verið á toppnum eftir tvær umferðir á þessari öld.

Toppliðið eftir tvær umferðir í tólf liða deild 2008-2109:

2019 - Fylkir, KR, ÍA, Breiðablik og FH með 4 stig

2018 - Breiðablik með 6 stig

2017 - Valur með 6 stig

2016 - FH, Fjölnir, Stjarnan og Víkingur Ó. með 6 stig

2015 - FH og Stjarnan með 6 stig

2014 - Fjölnir, Keflavík og Stjarnan með 6 stig

2013 - FH, ÍBV, Valur og KR

2012 - Valur og ÍA með 6 stig

2011 - Valur með 6 stig

2010 - Fylkir og Keflavík með 6 stig

2009 - Stjarnan KR, Fylkir og Breiðablik með 6 stig

2008 - FH, Fram, Fjölnir og Keflavík

Toppliðið eftir tvær umferðir frá 2000-2007:

2007 - FH með 6 stig

2006 - FH, Breiðablik og Fylkir með 6 stig

2005 - FH, Valur og KR með 6 stig

2004 - Keflavík með 6 stig

2003 - Valur og Fylkir með 6 stig

2002 - Fylkir, KR, Þór og Keflavík með 4 stig

2001 - Keflavík, Valur og Breiðablik með 6 stig

2000 - Keflavík og ÍA með 6 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×