Erlent

Hermdu eftir flugi Lion Air: „Hræðileg staða til að vera í“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot úr þættinum
Skjáskot úr þættinum
„Þetta er hræðileg staða til að vera í, það er erfitt að ímynda sér þetta,“ sagði ástralski flugmaðurinn Chris Brady í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes Australia sem sýndur var í gær. Þar var farið ofan í saumana á þeim vandamálum sem hrjáð hafa Boeing 737 MAX-vélarnar að undanförnu og meðal annars hermt eftir flugi Lion Air sem hrapaði í Indónesíu á síðasta ári.

189 manns fórust þegar 737 MAX vél Lion Air fórst skömmu eftir flugtak. Fimm mánuðum síðar hrapaði samskonar flugvél Ethiopian Airlines með þeim afleiðingum að 157 manns fórust. Slysin hafa verið rakin til sérstaks búnaðar sem nefnist MCAS sem sett var í vélarnar til þess að koma í veg fyrir ofris.

Búnaðurinn er sjálfvirkur og í þættinum fór Turner yfir það með fréttamanni 60 Minutes Australia hvernig hann virkar, með því að herma eftir flugi Lion Air í flughermi. Vélin hrapaði tólf mínútum eftir flugtak.

Í þættinum má sjá Brady berjast við MCAS-kerfið um stjórn á flugvélinni og hvernig flugvélin tekur hraða dýfu niður á við. Brady tekst þó að rétta flugvélina við áður en baráttan hefst á ný.

„Kerfið er hannað til þess að kveikja á sér í tíu sekúndur og slökkva á sér í fimm sekúndur. Við vissum það ekki vegna þess að við flugmennirnir fengum aldrei að vita það. Þetta var ekki í handbókunum,“ sagði Turner sem er reyndur 737 flugmaður. Í myndbandinu má sjá að fréttamanninum, sem og Turner, þyki eftirlíking flugsins nokkuð óþægileg enda má sjá hvernig vélin stefnir beint til jarðar.

Horfa má á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.

Í þættinum er einnig rætt við Dominic Gates, blaðamann Seattle Times, sem segir að stjórnendur Boeing hafi ekki litist á blikinu þegar fréttir bárust af fyrirhugaðri pöntun American Airlines á 200 Airbus-vélum. Á þeim tíma hafi Boeing ekki haft mörg svör við Airbus A320NEO sem þá var nýkominn á markað

Send hafi verið skilaboð til American Airlines að Boeing myndi endurhanna 737-vélar sínar ef þeir fengu helming af hinni fyrirhugu Airbus-pöntun.

„American sagði já,“ sagði Gates og úr varð MAX-áætlunin.

Einnig er rætt við mann sem sagður er hafa starfað hjá Boeing á þessum tíma en hann kemur ekki fram undir nafni í þættinum. Í máli hans kom fram að mikill þrýstingur hafi verið á að gera litlar breytingar og draga úr kostnaði við hönnunina á MAX-vélunum. Sérstök áhersla hafi verið lögð á það að draga úr þörfinni á því að þjálfa flugmenn sem flogið höfðu fyrirrennurum MAX-vélarinnar sérstaklega fyrir hina nýju flugvél.

Hér að neðan má sjá hvernig MCAS-kerfið svokallaða virkar.




Tengdar fréttir

Boeing vissi af vandanum fyrir flugslysin mannskæðu

Verkfræðingar Boeing uppgötvuðu að viðvörunarmerki sem hefði getað hjálpað flugmönnum tveggja flugvéla sem fórust væri ekki virkt í öllum vélum áður en sú fyrri hrapaði í Indónesíu í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×