Enski boltinn

Liverpool mun ekki taka við hinum eina sanna Englandsbikar ef liðið vinnur titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Englandsbikarinn.
Englandsbikarinn. Getty/Shaun Botteril
Í fyrsta sinn í langan tíma munu úrslitin í baráttunni um enska meistaratitilinn ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni en Manchester City og Liverpool geta bæði orðið enskur meistari á sunnudaginn.

Brighton & Hove Albion tekur á móti Manchester City á sama tíma og Liverpool fær Wolverhampton Wanderers í heimsókn.

Englandsbikarinn getur því bæði farið á loft í Amex leikvanginum í Brighton sem og á Anfield leikvanginum í Liverpool. Úrslitin ráðast á sama tíma og því getur bikarinn ekki verið á tveimur stöðum á sama tíma.

Við þekkjum það á Íslandi að bikarinn hefur farið í þyrlu á milli leikvanga en það eru meira en 400 kílómetrar á milli Brighton á suðurströnd Englands og Liverpool sem er á norðvesturströndinni.

Times segir frá því hvernig fyrirkomulagið verður á sunnudaginn.





Hinn eini sanni Englandsbikar verður í Brighton þar sem eru mestar líkur á að hann fari á lofti. Nákvæm eftirmynd af Englandsbikarnum fer aftur á móti norður til Liverpool.

Liverpool mun því ekki taka við hinum eina sanna Englandsbikar ef liðið vinnur titilinn en það skiptir þó litlu máli. Félagið er búið að bíða eftir Englandsmeistaratitli frá árinu 1990, eða í 29 ár, og sjálfur bikarinn skiptir því engu máli ekki síst þar sem þeir líta nákvæmlega eins út.

Manchester City er með eins stigs forskot á Liverpool og leikmenn liðsins þurfa því aðeins að treysta á sig sjálfar. Sigur á Brighton & Hove Albion þýðir að Manchester City er enskur meistari annað árið í röð.

Liverpool verður að vinna Úlfana og treysta síðan á það að City liðið tapi stigum á móti Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×