Erlent

Fjór­tán dæmdir fyrir valda­ráns­til­raun í Svart­fjalla­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hluti sakborninga í haldi lögreglu í Svartfjallalandi í október 2016.
Hluti sakborninga í haldi lögreglu í Svartfjallalandi í október 2016. AP
Dómstóll í Svartfjallalandi hefur dæmt fjórtán manns, þar af tvo þingmenn í stjórnarandstöðu, í fangelsi vegna tilraunar til valdaráns árið 2016. Mennirnir eru sakaðir um að hafa skipulagt valdarán með aðstoð Rússa.

Stjórnarandstöðuþingmennirnir, Andrija Mandic og Milan Knezevic, voru báðir dæmdir í fimm ára fangelsi, en réttað var yfir tólf af hinum fjórtán í fjarveru þeirra.

Flestir hinna dæmdu eru serbneskir ríkisborgarar, en Rússarnir Eduard Shishmakov og Vladimir Popov hlutu þyngstu dómana, annars vegar tólf ára fangelsi og hins vegar fimmtán.

Saksóknarar sögðu mennina hafa ætlað sér að myrða þáverandi forsætisráðherra landsins, Milo Djukanovic, og koma í veg fyrir aðild landsins að NATO. Djukanovic er nú forseti landsins.

Stjórnarandstaðan í Svartfjallalandi, sem vill auka samstarf við Rússlandsstjórn, hefur fordæmt réttarhöldin og líkt þeim við nornaveiðar með það að markmiði að skemma fyrir pólitískum andstæðingum stjórnarinnar.

Réttarhöldin hafa staðið í um eitt og hálft ár og er mörgum spurningum enn ósvarað. Nokkur umræða hefur skapast um að þau vopn sem sakborningar voru sagðir hafa ætlað sér að nota voru ekki sýnd í réttarhöldunum. Þá breytti eitt af aðalvitnum saksóknara vitnisburði sínum í miðjum réttarhöldum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.