Innlent

VÍS hættir útleigu á barnabílstólum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Viðskiptavinir VÍS geta ekki lengur fengið barnabílstóla á leigu frá tryggingafélaginu.
Viðskiptavinir VÍS geta ekki lengur fengið barnabílstóla á leigu frá tryggingafélaginu. Fréttablaðið/Anton Brink

Tryggingafélagið VÍS ætlar að hætta útleigu á barnabílstólum en félagið hefur boðið viðskiptavinum sínum bílastóla til útleigu fyrir börnin sín undanfarin 25 ár. Þeir viðskiptavinir sem eru með bílstól á leigu geta haldið áfram að leiga hann.

Honum verður þó ekki hægt að skipta út fyrir nýjan stól. Þá fá þeir sem eru á biðlista eftir bílstól hann afhentan á næstunni.

„Foreldrum barna í viðskiptavinahópi VÍS sem nýta sér þessa þjónustu hefur fækkað hlutfallslega undanfarin ár þótt fjöldinn hafi verið svipaður á milli ára eða um 6000 börn. Þegar VÍS hóf útleigu á barnabílstólum fyrir 25 árum sýndu rannsóknir að um 30% af börnum voru laus í bílum auk þess sem aðgengi og úrval af barnabílstólum var lítið. Nú eru innan við 2% barna laus í bílum og aðgengi að vönduðum og öruggum barnabílstólum hefur aukist til muna,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, samskiptastjóri VÍS, í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.

„Sú þróun sýnir okkur að þörfin á útleiguþjónustu VÍS á barnabílstólum, sem var mikil fyrir 25 árum, er ekki lengur sú sama og því tímabært fyrir félagið að beina kröftum sínum í önnur forvarnar- og öryggisverkefni.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.