Erlent

Íranir gætu rift kjarnorkusamningnum vegna aðgerða Bandaríkjastjórnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Zarif, utanríkisráðherra Írans.
Zarif, utanríkisráðherra Írans. Vísir/EPA
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir mögulegt að stjórnvöld í Teheran segi skilið við kjarnorkusamninginn við heimsveldin eftir að Bandaríkjastjórn lagði frekari viðskiptaþvinganir á landið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin í fyrra út úr kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við Íran árið 2015. Með samningnum féllust heimsveldin á að aflétta refsiaðgerðum gegn Íran gegn því að þarlend stjórnvöld takmörkuðu kjarnorkuáætlun sína og leyfðu alþjóðlegum eftirlitsmönnum að fylgjast með henni.

Síðan þá hefur Bandaríkjastjórn lagt refsiaðgerðir aftur á Íran. Fyrr í þessum mánuði setti hún íranska byltingarvörðinn á lista yfir hryðjuverkasamtök og krafðist þess að þeir sem kaupa olíu af Írönum hætti því fyrir maí eða sæti viðskiptaþvingunum ella.

Zarif segir að riftun samningsins sé einn þeirra möguleika sem Íransstjórn gæti valið að fara í framhaldinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Lýsti hann óánægju með hversu lengi Evrópuríki hafi dregið lappirnar í að gera Írönum kleift að stunda viðskipti við þau.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×