Erlent

Kosningastarfsfólk deyr í hundraðatali

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Á kjörstað í Banda Aceh fyrr í mánuðinum.
Á kjörstað í Banda Aceh fyrr í mánuðinum. Nordicphotos/AFP

Rúmlega 270 starfsmenn indónesísku þing- og forsetakosninganna hafa látist úr ofreynslutengdum sjúkdómum. Þetta hafði breska ríkisútvarpið eftir Arief Priyo Susanto, talsmanni landskjörstjórnar, í gær. Einnig hafa 1.878 þurft að hverfa frá störfum vegna veikinda.

Kosningarnar voru fjölmennar. Alls greiddu um 80 prósent 193 milljóna atkvæðabærra Indónesíumanna atkvæði í kosningunum á um 800.000 kjörstöðum. Þær sjö milljónir sem hafa komið að talningu atkvæða frá kosningunum 17. apríl hafa, samkvæmt BBC, þurft að vinna nótt sem nýtan dag í miklum hita. Atkvæði eru handtalin og hafa aðstæðurnar reynst of erfiðar fyrir þennan fjölda fólks.

Stór hluti þeirra sem telja atkvæði gerir það í sjálfboðaliðastarfi. Ólíkt fastráðnum starfsmönnum þurfa sjálfboðaliðar ekki að gangast undir læknisskoðun.

Kjörstjórn ætlar að greiða fjölskyldum hinna látnu 36 milljónir rúpía í skaðabætur, andvirði um 300.000 króna. Sú upphæð samsvarar um það við tólf mánuðum á lágmarkslaunum.

Opinberar niðurstöður forsetakosninga liggja ekki enn fyrir. Kannanir benda til þess að Joko Widodo hafi náð endurkjöri. Andstæðingurinn, Prabowo Subianto, telur að niðurstöður þeirra kannana séu alrangar.

 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.