Íslenski boltinn

Ætla að bæta félagsmet og fara í 8-liða úrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fjórðu deildar lið Ægis á ærið verkefni fyrir höndum á morgun þegar það mætir Þrótti Reykjavík í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla.

Besti árangur Ægis í bikarkeppninni er 16-liða úrslit. Liðið náði því árið 2017, féll út fyrir Víkingi Reykjavík eftir að hafa slegið út Þór, Álftanes og Ými.

„Við erum búnir að æfa vel í vetur og erum tilbúnir í verkefnið,“ sagði Þorkell Þráinsson, leikmaður Ægis, í viðtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Lið Ægis er að mestu skipað heimamönnum úr Þorlákshöfn ásamt nokkrum erlendum leikmönnum. Markmið liðsins er að ná að bæta besta árangurinn og komast í 8-liða úrslitin.

Næsta hindrun í átt að því markmiði er lið Þróttar R., en hvað þarf Ægir að gera til þess að slá út Inkassodeildar-liðið?

„Reyna að halda hreinu sem lengst.“

Leikur Ægis og Þróttar hefst á Þorlákshafnarvelli klukkan 18:00 annað kvöld, á sama tíma fara fram fjórar aðrar viðureignir í 32-liða úrslitum bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×