Erlent

Forrit hinnar þrítugu Katie Bouman varpaði ljósi á svartholið

Birgir Olgeirsson skrifar
Katie Bouman sést hér hlaða myndinni af svartholinu inn á tölvuna sína.
Katie Bouman sést hér hlaða myndinni af svartholinu inn á tölvuna sína. Facebook
Tuttugu og níu ára gömlum tölvunarfræðingi er nú hrósað víða um heim fyrir að hafa þróað reiknirit sem skapaði fyrstu myndina af svartholi.

Tölvunarfræðingurinn er Dr. Katie Bouman sem leiddi þróunina á forritinu sem gerði þessa uppgötvun mögulega.

Myndefnið var risasvarthol í miðju Messier 87, risasporvöluvetrarbrautar í Meyjarþyrpingunni. Svartholið er í 55 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni og er 6,5 milljörðum sinnum massameira en sólin okkar.

Það sem sést á myndinni er skuggi sem svartholið varpar á gasskífu sem umlykur það. Slíkur skuggi hefur aldrei náðst á mynd áður.

Mynd náðist af Bouman þar sem hún var hlóð myndinni inn á tölvuna sína.



Hún hóf þróun þessa reiknirits fyrir þremur árum þegar hún var nemi við MIT, tækniháskólann við Massachusetts í Bandaríkjunum.

Vísindamennirnir notuðu átta útvarpssjónauka víðs vegar á jörðinni sem virkuðu eins og einn risavaxinn sjónauki til að fanga svartholið sem er á við milljarða sóla á mynd.

Eftir að myndin var opinberuð þá fór nafn Dr. Bouman sem eldur um sinu netheima þar sem fólk kepptist við að lýsa yfir hrifningu sinni á henni.

Dr. Bouman hefur hins vegar haldið því til streitu að hún á ekki ein skilið hrós, heldur allt teymið sem vann með henni, en um 200 vísindamenn komu að þessu verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×