Avenatti skaust á sjónarsviðið þegar hann og Stormy Daniels höfðuðu mál gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til að fá hnekkt þagnarsamkomulagi sem hún hafði gert við forsetann svo hún segði ekki frá meintu framhjáhaldi hans, með henni, árið 2006. Lögmaður Trump, Michael Cohen, greiddi Daniels 160 þúsund dali um mánuði fyrir forsetakosningarnar 2016 vegna samkomulagsins.
Lögmaðurinn sagðist hafa barist fyrir réttindum kvenna allan feril sinn og hann myndi halda því áfram. Þá sagðist hann hlakka til þess að lögreglan lyki ítarlegri rannsókn sinni og kæmist að þeirri niðurstöðu að hann væri saklaus.
Sjá einnig: Lögmaður Stormy Daniels handtekinn vegna gruns um heimilisofbeldi
Í kjölfar ummæla hans sendi Avenatti frá sér tilkynningu þar sem hann þakkaði lögreglunni fyrir fagmennsku og sagði að ásakanirnar gegn honum væru rangar. Þeim væri ætlað að grafa undan orðspori hans og trúverðugleika.
Fyrstu fregnir af málinu sögðu Avenatti vera grunaðan um að beita fyrrverandi eiginkonu sína ofbeldi. Hún sendi þó frá sér tilkynningu um að það væri ekki rétt og hún kæmi ekki að þessu máli. Þá sagði í tilkynningunni að Lisa Storie-Avenatti hefði aldrei orðið fyrir ofbeldi að hálfu Avenatti og hún hefði aldrei orðið vitni af því að hann hefði hagað sér á ofbeldisfullan hátt.
Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um málið að svo stöddu.