Enski boltinn

Stjóri Barnsley missti tvær tennur eftir að Barton réðst á hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barton er ekki sá eðlilegasti.
Barton er ekki sá eðlilegasti. vísir/getty

Daniel Stendel, knattspyrnustjóri Barnsley, missti tvær tennur þegar Joey Barton, stjóri Fleetwood Town, réðst á hann eftir leik liðanna í ensku C-deildinni á laugardaginn. Barnsley vann leikinn, 4-2.

Vitni sáu Barton ráðast á Stendel, skalla hann og kýla. Stendel var tveimur tönnum fátækari eftir árásina samkvæmt Mirror.

Barton var stöðvaður af lögreglu á leið sinni af vellinum á laugardaginn. Tekin var skýrsla af Barton og lögreglan mun ræða aftur við hann í vikunni. Ekki hefur enn verið tekin skýrsla af Stendel. Þegar því er lokið gæti hann lagt fram kæru á Barton.

Talið er að Barton hafi enn verið pirraður yfir einhverju sem gerðist í fyrri leik liðanna í september sem Barnsley vann, 1-3. Eftir leikinn á laugardaginn tókust Barton og Stendel í hendur. Barton átti þó eitthvað vantalað við Stendel og hljóp sem fætur toguðu til búningsherbergja á eftir honum.

Barton er þekktur vandræðagemsi og kom sér oft og iðulega í vandræði á leikmannaferlinum. Honum lauk þegar Barton var dæmdur í 18 mánaða bann fyrir veðmálamisferli. Hann tók við Fleetwood degi eftir að banninu lauk.

Fleetwood er í 11. sæti C-deildarinnar en Barnsley í 2. sætinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.