Íslenski boltinn

Fyrsta umferð Mjólkurbikarsins klárast í kvöld

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stjarnan er ríkjandi Mjólkurbikarmeistari karla
Stjarnan er ríkjandi Mjólkurbikarmeistari karla vísir/daníel

Fyrstu umferð Mjólkurbikars karla lýkur í kvöld með leik KB og Snæfells á Leiknisvellinum í Breiðholti. Önnur umferðin fór af stað um helgina.

Mjólkurbikarinn fór af stað í síðustu viku en það eru mest megnis lið í neðri deildunum sem hefja leik í fyrstu umferð, þó nokkur lið úr Inkassodeildinni séu þar á meðal keppenda.

Í gær fóru fram þrír leikir í fyrstu umferð. Skallagrímur tapaði fyrir KV, Selfoss vann öruggan sigur á Þrótti Vogum og Úlfarnir völtuðu yfir Vatnaliljur.

Skallagrímur og KV spila bæði í þriðju deild í sumar, liðin mættust í Akraneshöllinni í gær.

Gestirnir í KV byrjuðu leikinn af krafti, Einar Már Þórisson skoraði fyrsta markið eftir fjórtán mínútur og Oddur Ingi Bjarnason bætti öðru við á 34. mínútu. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks gerði Viktor Máni Róbertsson þriðja mark KV sem fór með örugga forystu í hálfleikinn.

Elís Dofri Gylfason veitti Borgnesingum líflínu á 51. mínútu en KV svaraði um hæl með marki frá Vilhjálmi Kaldal Sigurðssyni. Þar við sat, lokatölur 4-1 fyrir KV sem mætir ÍR í annari umferð á skírdag.

Á Selfossi tóku heimamenn á móti Þrótti úr Vogum, en bæði lið leika í annari deild í sumar. Hrovje Tokic kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik og leiddu Selfyssingar 1-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik gerðu Adam Örn Sveinbjörnsson og Kenan Turudija sitt hvort markið fyrir Selfoss sem vann 3-0 sigur. Selfyssingar fara í Mosfellsbæ og mæta Aftureldingu í annari umferð.

Í Fífunni unnu Úlfarinir stórsigur á Vatnaliljum 6-1. Steinar Haraldsson skoraði tvö mörk fyrir Úlfana sem leiddu 4-1 í hálfleik. Úlfarnir, sem spila í fjórðu deild, eiga erfitt verkefni fyrir höndum í annari umferð þar sem þeir mæta Inkasso-liði Víkings Ólafsvíkur.

Önnur umferð hófst um helgina þegar Sindri og Leiknir Fáskrúðsfirði mættust á laugardaginn. Sindramenn unnu 5-1 sigur.

Í annari umferð, sem verður að mestu leikin um páskahelgina, verða tveir Inkassodeildar-slagir þar sem Leiknir Reykjavík og Fjölnir mætast annars vegar og Keflavík og Haukar hins vegar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.