Enski boltinn

Fagnar því að Solskjær lenti í vandræðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær virtist ekki geta tapað til að byrja með.
Ole Gunnar Solskjær virtist ekki geta tapað til að byrja með. vísir/getty
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og sérfræðingur Sky Sports um ensku úrvalsdeildina, segir að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sé að læra meira um liðið sitt og leikmenn núna en í fyrstu leikjunum eftir að hann tók við.

Hveitibrauðsdagar Solskjærs virtust engan enda ætla að taka en hann vann fyrstu níu leiki sína við stýrið hjá United, þar af vann hann Lundúnarliðin Arsenal, Chelsea og Tottenham öll á útivelli og kom United á ótrúlegan hátt í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Liðið hefur aftur á móti dalað undanfarnar vikur. Það er búið að tapa fyrir Arsenal og Barcelona og tvívegis fyrir Úlfunum bæði í deild og bikar. United er ekki lengur í bílstjórasætinu þegar kemur að baráttunni um Meistaradeildarsæti og á erfiðan leik fyrir höndum gegn Barcelona í kvöld.

„Ole er búinn að vera í basli eftir PSG-leikinn en ég er að ákveðnu leyti frekar ánægður því það hefði bara verið blekkingarleikur fyrir alla ef allt hefði verið í blóma til loka leiktíðar,“ sagði Neville í Monday Night Football í gærkvöldi.

„Mér fannst alltaf réttur tími að tilkynna áframhaldandi veru hans í lok mars eða byrjun apríl því ef menn vildu halda Ole þurfti hann að fá tíma til að undirbúa sig fyrir næstu leiktíð.“

„Ole lærir meira á þessum síðustu vikum tímabilsins um leikmenn sína heldur en hann gerði á fyrstu sex til átta vikunum þegar allt gekk upp. Það var hreint ótrúlegt að fylgjast með liðinu á þeim tíma. Leikurinn gegn PSG var eitt besta kvöld sem ég hef átt sem stuðningsmaður Manchester United,“ sagði Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×