Erlent

Blaðamaður skotinn til bana í óeirðum í Londonderry

Andri Eysteinsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi í morgun. Charles McQuillan

Norðurírskur blaðamaður, Lyra McKee, var í gærkvöld skotin til bana í Londonderry þar sem hún fjallaði um óeirðir sem geisuðu í Creggan-hverfi borgarinnar í gærkvöld.

Lögregla rannsakar morðið sem hryðjuverk. McKee varð fyrir skoti sem grímuklædds byssumanns er hún stóð nærri lögreglunni í Londonderry. BBC greinir frá.

Óeirðirnar blossuðu upp í Creggan-hverfi Londonderry, borgar sem er þekkt fyrir átökin sem þar áttu sér stað á seinni hluta síðustu aldar, eftir að lögregla hafi framkvæmt húsleitir hjá þekktum lýðveldissinnum. Leitirnar voru skipulagðar til þess að stöðva möguleg áform lýðveldissinna en haldið verður upp á sjálfstæði Írlands um þessa helgi.

Mikil átök blossuðu upp og vörpuðu óeirðarseggirnir allt að fimmtíu bensínsprengjum að lögreglubílum, kveikt var í tveimur bílum. Þá var einnig skotið á lögreglu sem kallað hefur atvikið hryðjuverk.

Aðstoðaryfirlögregluþjónninn Mark Hamilton sagði á blaðamannafundi að skotið hefði verið í átt að lögreglu um klukkan 23:00 í gærkvöld, eitt skotanna hafi hæft blaðamanninn McKee í höfuðið og var hún flutt á spítala en ekki tókst að bjarga lífi hennar.

Hamilton sagði að rannsókn væri hafin á morðinu og taldi að samtökin Nýi írski lýðveldisherinn (New IRA) stæði að baki verknaðinum. Samtökin stóðu fyrr á árinu fyrir sprengjuárás fyrir utan dómssal í borginni.

Norðurírsku blaðamannasamtökin minntust McKee í yfirlýsingu og sögðu hana hafa verið einn efnilegasta rannsóknarblaðamann Norður Írlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.