Erlent

Ungir umhverfisaðgerðasinnar mótmæla við Heathrow flugvöll

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Einn vegatálmanna í miðbæ Lundúna.
Einn vegatálmanna í miðbæ Lundúna. Getty/Leon Neal
Ungir umhverfissinnar í Lundúnum hafa fært mótmælin sem geisað hafa á götum Lundúna til Heathrow flugvallar. Mótmælin hafa staðið yfir síðan á mánudag og hlotið heitið „Extinction Rebellion,“ eða Útrýmingar uppreisnin. Þetta kemur fram á vef The Guardian.

Mótmælendurnir við Heathrow eru allir fæddir eftir 1990 og við komu þeirra á Heathrow drógu þau upp fána sem á stóð „Erum við síðasta kynslóðin?“ sem notaður var af mótmælendum til að stöðva umferð á stærsta hringtorginu sem liggur til og frá flugvellinum.

Um 25 lögreglumenn voru kallaðir á staðinn en mótmælendum var hótað handtöku ef þeir færðu sig ekki upp á gangstétt. Fjórir þeirra neituðu að færa sig og stóðu áfram á veginum í meira en klukkutíma.

Mótmælendur í Lundúnum halda enn vegatálmum á fjórum stöðum sem komið var upp í miðbæ Lundúna í vikunni þrátt fyrir að rúmlega 500 mótmælendur hafi verið handteknir og búast aðgerðasinnarnir við að fleiri mótmælendur bætist í hópinn um helgina.

Talsmaður aðgerðasinnanna, Ronan McNern, telur að ný þáttaröð Davids Attenborough, Climate Change: The Facts, muni hjálpa málstað þeirra mikið. Í samtali við The Guardian sagði hann að mótmælin væru að setja umhverfismál í brennipunkt. Fólk væri að tala um umhverfismál og það væri það mikilvægasta af öllu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×