Enski boltinn

Guardiola sagði leikmönnum sínum hjá Man. City að gleyma fernunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola fagnar enska meistaratitlinum í fyrra.
Pep Guardiola fagnar enska meistaratitlinum í fyrra. Getty/Matthew Ashton
Allir í kringum þá og flestir áhugamenn um enska fótboltann eru að velta fyrir sér möguleikanum á því að Manchester City vinna einstaka fernu á þessu tímabili en knattspyrnustjóri félagsins vill aftur á móti að hans leikmenn hætti öllum slíkum vangaveltum.

Manchester City er þegar komið með enska deildabikarinn í hús og getur náð toppsætinu í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Cardiff í kvöld. Liðið spilar síðan við Brighton í undanúrslitum enska bikarsins um helgina og síðan á móti Tottenham í fyrri leik sínum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í næstu viku.

„Á einni viku eða þremur dögum þá gætum við misst alla titlana,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi fyrir leikinn í kvöld.





Pep Guardiola er áfram að reyna að tala niður möguleikana á hans lið vinni fernuna á þessu tímabili en það hefur engu ensku liði tekist hingað til. Fernu-pressan gæti reynst skeinuhætt.

„Ég hef sagt það mörgum sinnum áður að þið verðið bara að spyrja mig í lok apríl,“ sagði Guardiola um möguleikann á fernunni.

„Af hverju erum við að tala um fernu í þessu landi, goðsagnakenndu fótboltalandi, þegar þetta hefur aldrei gerst áður,“ spurði Guardiola síðan ensku fjölmiðlamennina.

„Goðsagnakennd lið eins og Liverpool, Manchester United undir stjórn Sir Alex Ferguson, Chelsea undir stjórn Jose Mourinho, Arsenal undir stjórn Arsene Wenger, þau náðu þessu aldrei. Af hverju ættum við því að geta það,“ hélt Guardiola áfram að spyrja.

„Ég er ekki inn í hausnum á mínum leikmönnum eða stuðningsmönnum félagsins og get því ekki ákveðið hvað þeir hugsa. Ef þá dreymir um að vinna allt þá er ég ekki maðurinn til að finna að því,“ sagði Guardiola.

„Auðvitað erum við enn í þeirri stöðu að geta náð fernunni. Ég sagði samt við mína menn að gleyma fernunni. Raunveruleikinn er sá að við getum tapað öllum titlinum á einni viku eða jafnvel bara þremur dögum,“ sagði Guardiola.

„Við getum allir séð fyrir okkur að vinna alla þessa fjóra titla en núna þurfum við að einbeita okkur að Cardiff,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×