Erlent

Leynileg upptaka þrengir enn stöðu Trudeau

Kjartan Kjartansson skrifar
Jody Wilson-Raybould þegar hún bar vitni fyrir þingnefnd í lok febrúar.
Jody Wilson-Raybould þegar hún bar vitni fyrir þingnefnd í lok febrúar. Vísir/Getty
Fyrrverandi dómsmálaráðherra Kanada hefur birt upptöku af tilraunum ráðgjafa Justins Trudeau, forsætisráðherra, þrýsta á hann um að forða stórfyrirtæki frá saksókn. Málið hefur reynst Trudeau erfiður ljár í þúfu að undanförnu og veikt stöðu hans fyrir þingkosningar sem verða haldnar síðar á þessu ári.

Trudeau og nánustu ráðgjafar hans eru sakaðir um að hafa beitt Jody Wilson-Raybould, þáverandi dómsmálaráðherra, óeðlilegum þrýstingi til þess að forða SNC-Lavalin, einu stærsta byggingar- og verkfræðisfyrirtæki heims, frá saksókn vegna mútugreiðslna í Líbíu. Trudeau hefur hafnað öllum ásökunum um óeðlileg afskipti hans eða ráðgjafa hans. Hann og embættismenn hafa lýst áhyggjum af því að þúsundir starfa gætu tapast ef fyrirtækið yrði sakfellt vegna spillingar.

Wilson-Raybould sagði af sér í febrúar en breska ríkisútvarpið BBC segir að hún hafi látið þingnefnd í  té ný gögn um málið, þar á meðal upptöku sem hún gerði af símtali hennar og Michael Wernick, nánum ráðgjafa Trudeau. Upptakan var gerð opinber í gær.

Á upptökunni heyrist Wernick, sem sagði af sér í þessum mánuði, ítrekað vekja máls á því að Trudeau hafi áhuga á að SNC-Lavalin komist hjá saksókn og að sátt yrði gerð við fyrirtækið. Wilson-Raybould segist hafa tekið upp símtalið vegna þess að að henni hafi fundist það óeðlilegt og að hún hafi viljað eiga nákvæma lýsingu á efni þess.

Heyrist Wilson-Raybould meðal annars segja Wernick að henni finnist samtalið óviðeigandi og að héldi hann áfram að ræða við hana á þeim nótum gengi það á sjálfstæði hennar sem æðsti saksóknari landsins.

Dómsmálaráðherrann fyrrverandi lagði upptökuna fram eftir að Frjálslyndi flokkur Trudeau ákvað að hætta rannsókn þingnefndar á málinu með þeim rökum að markmiðum hennar hefði verið náð fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×