Erlent

Ráðherra segir af sér vegna meintra afskipta Trudeau af rannsókn

Kjartan Kjartansson skrifar
Philpott segist hafa misst trú á viðbrögð ríkisstjórnar Trudeau við ásökununum.
Philpott segist hafa misst trú á viðbrögð ríkisstjórnar Trudeau við ásökununum. Vísir/Getty
Jane Philpott, einn hæst setti ráðherrann í ríkisstjórn Justins Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur sagt af sér. Hún segist hafa misst trú á hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á spillingarrannsókn á verkfræðifyrirtæki. Trudeau hefur verið sakaður um að þrýsta á dómsmálaráðherra sinn um að grípa inn í rannsóknina á fyrirtækinu.

Í afsagnarbréfi sem Philpott, sem er forseti svonefnds fjármálaráðs Kanada, ritaði segist hún verða að fylgja grunngildum sínum og siðferðislegum og stjórnarskrárlegum skyldum. Hún hafi þungar áhyggjur af því að vísbendingar séu um að stjórnmálamenn og embættismenn hafi þrýst á fyrrverandi dómsmálaráðherra að beita sér í sakamálarannsókna á SNC-Lavalin.

„Það getur kostað sitt að standa við lífsreglur sínar en það kostar enn meira að láta þær lönd og leið,“ skrifaði Philpott sem sagði sér ekki lengur sætt í ríkisstjórninni. Hún ætlar þó áfram að sitja sem þingmaður Frjálslynda flokksins.

Trudeau sagði afsögn Philpott vonbrigði en að hann hefði skilning á henni. Vinsældir hans í skoðanakönnunum hafa minnkað vegna hneykslismálsins en kosið verður til þings í október. Philpott er þriðji ráðherrann sem hefur sagt af sér vegna þess, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

SNC-Lavalin er eitt stærsta verkfræði- og byggingarfyrirtæki heims. Það hefur verið til rannsóknar vegna ásakana um fjársvik og spillingu vegna meintra mútugreiðslna til líbískra embættismanna á árunum 2001 til 2011.

Jody Wilson-Raybould sagði af sér sem dómsmálaráðherra í febrúar og sagði þá að hún og starfslið hennar hefði setið undir sífelldum og óviðeigandi tilraunum til að koma SNC-Lavalin undan saksókn. Trudeau og nokkrir helstu ráðgjafar hans hafa verið sakaðir um að hafa staðið að þeim tilraunum. Einn helsti ráðgjafi forsætisráðherrann sagði af sér upp úr miðjum febrúar en neitaði að hafa gert nokkuð óviðeigandi í starfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×