Erlent

Baráttunni gegn ISIS „alls ekki lokið“

Samúel Karl Ólason skrifar
Rifinn fáni Íslamska ríkisins liggur í jörðinni nærri Baghouz.
Rifinn fáni Íslamska ríkisins liggur í jörðinni nærri Baghouz. AP/Maya Alleruzzo
Paul LaCamera, æðsti hershöfðingi bandalagsins gegn Íslamska ríkinu, segir það sögulegan áfanga að hafa sigrað kalífadæmi ISIS. Bandalagið hafi frá 2014 tekið nærri því 110 þúsund ferkílómetra af hryðjuverkasamtökunum og frelsað vel á átta milljónir manna undan oki þeirra. Þrátt fyrir það sé baráttunni alls ekki lokið.

Í yfirlýsingu frá bandalaginu segir að aðildarríki þessi hrósi Syrian Democratic Forces, regnhlífarsamtök ýmissa aðila í Sýrlandi sem eru leidd af sýrlenskum Kúrdum, fyrir baráttu þeirra gegn vígamönnum ISIS og fyrir að frelsa síðustu borgarana úr síðasta bæ samtakanna.

SDF lýstu því yfir í dag að ISIS-liðar hefðu verið sigraðir í bænum Baghouz í austurhluta Sýrlands. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafði lýst því yfir í gærkvöldi.

Sjá einnig: Hvíta húsið segir kalífadæmi ISIS heyra sögunni til



„Endalok hins svokallaða kalífadæmis er sögulegt hernaðarafrek sem myndaði stærsta bandalag sögunnar, en baráttunni gegn Daesh [annað heiti hryðjuverkasamtakanna] og ofbeldisfullri öfgastarfsemi er alls ekki lokið,“ er haft eftir LeCamera í yfirlýsingunni.



Hann sagði einnig að þær 74 þjóðir og þau fimm alþjóðlegum samtök sem mynda bandalagið gegn ISIS gætu ekki lagt árar í bát. Leiðtogar hryðjuverkasamtakanna hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að senda marga vígamenn sína í felur og þeir bíði nú eftir því að geta stungið kollinum upp á nýjan leik.

Tímalína þar sem stiklað er á stóru varðandi þróun kalífadæmisins.

Á undanförnum mánuði hafa rúmlega sextíu þúsund ISIS-liðar, fjölskyldur þeirra og aðrir stuðningsmenn samtakanna gefist upp í Baghouz. LaCamera segir að þetta fólk muni ekki láta auðveldlega af öfgum sínum og það verði heilmikið verkefni að koma þessu fólki aftur út í samfélagið. Þar þurfi allir í bandalaginu að hjálpast að.

Til að reka ganga frá Íslamska ríkinu fyrir fullt og allt þurfi að veita íbúum Írak og norðausturhluta Sýrlands stuðning og sigra þurfi hugmyndafræði hryðjuverkasamtakanna.

Þrátt fyrir að yfirráðasvæði Íslamska ríkisins hafi verið frelsað munu samtökin enn ógna íbúum á svæðinu. Lengi hefur þótt öruggt að ISIS-liðar myndu snúa sér að hefðbundnum skæruhernaði og hryðjuverkum, eins og þeir gerðu áður en þeir stofnuðu kalífadæmið og er mikið um vísbendingar að sú sé raunin.

Þá hefur Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna ekki fundist enn. Hann er talinn hafa flúið frá Baghouz á undanförnum mánuðum og vera í felum í eyðimörkinni á milli Sýrlands og Írak.


Tengdar fréttir

ISIS-liðar ekki af baki dottnir

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna eru í felum í Sýrlandi og Írak og bíða þess að Bandaríkin fari á brott.

Vildu ekki yfirgefa kalífadæmið

Margir þeirra íbúa sem flúið hafa leifar Kalífadæmis Íslamska ríkisins segjast enn hliðhollir hryðjuverkasamtökunum og þau hafi eingöngu flúið eftir að trúarleiðtogar eða leiðtogar ISIS hafi skipað þeim að flýja.

ISIS-liðar gefast upp í massavís

Vígamenn Íslamska ríkisins gefast nú upp í hundraðatali í Baghouz, síðasta bæ kalífadæmis hryðjuverkasamtakanna.

ISIS-liðar sýna mátt sinn í Írak

Talið er að hundruð vígamanna Íslamska ríkisins hafi tekist að flýja undan lokasókn sýrlenskra Kúrda og bandamanna þeirra gegn hryðjuverkasamtökunum í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×