Erlent

Fæddust í „ríki“ sem er ekki lengur til og eiga hvergi skjól

Samúel Karl Ólason skrifar
Konur og börn flýja frá Baghouz.
Konur og börn flýja frá Baghouz. Vísir/AP
Ung börn sem fæddust í kalífadæmi Íslamska ríkisins og mæður þeirra streyma nú frá Baghouz, síðasta bænum sem ISIS-liðar stjórna í Sýrlandi. Feður barnanna eru flestir dánir og heimaríki mæðranna vilja ekki fá þær heim.

Harðir bardagar standa nú yfir um bæinn Baghouz í austurhluta Sýrlands þar sem sýrlenskir Kúrdar og bandamenn þeirra gera nú „lokaatlöguna“ að kalífadæminu, eins og henni hefur verið lýst. Bandaríkin styðja atlöguna með umfangsmiklum loftárásum.

Óljóst er hve margir ISIS-liðar verja bæinn en talið er að þeir telji í hundruðum og séu að mestu erlendir vígamenn hryðjuverkasamtakanna.

Þá er ekki ljóst hve margir borgara eru í Baghouz en á undanförnum vikum er talið að minnst tuttugu þúsund manns hafi flúið svæðið, samkvæmt AP fréttaveitunni.



Það er þó ekki ljóst hvort hægt verði að tæma þessar búðir á næstunni.

Margir þeirra sem flúið hafa Baghouz eru eiginkonur erlendra ISIS-liða og þær sjálfar eru að mestu erlendar. Blaðamaður AFP fréttaveitunnar, sem fylgst hefur með streymi fólks frá Baghouz, segir þessi börn og mæður þeirra í erfiðri stöðu.



Börnin hafi fæðst í „ríki“ sem sé ekki lengur til. Feður þeirra séu dánir og heimaríki mæðra þeirra vilji ekki fá þær, og þar með þau líka, aftur.

Sjá einnig: Kanadískur ISIS-liði telur sig hafa verið yfirgefinn



Að mestu leyti eru þessar konur og börn sendar til sérstakra búða sem Kúrdar reka í norðurhluta landsins. Þessi mikli fjöldi fólks hefur valdið frekara álagi á flóttamannabúðir sem Kúrdar reka og eiga þegar við skort á nauðsynjum og teppum svo eitthvað sé nefnt. Þá eru búðirnar langt frá bænum og fólkið er flutt þangað á pallbílum. Minnst 35 börn hafa dáið á leiðinni til búðanna og flest úr ofkælingu.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur kallað eftir því að heimaríki vígamanna ISIS taki á móti þeim og rétti yfir þeim. Ríki hafa þó ekki góða reynslu af því þar sem meðal annars hefur reynst erfitt að sanna fyrir dómi að grunaðir vígamenn hafi gengið til liðs við Íslamska ríkið.

Hundruð vígamanna, kvenna og barna eru í haldi sýrlenskra Kúrda og hefur sérstök áhersla verið lögð á að koma þeim heim eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í desember að hann ætlaði að kalla hermenn Bandaríkjanna heim frá Sýrlandi.

Búist er við því að það verði gert þegar síðasta vígi ISIS-liða er fallið. Þá þykir hætta á því að mennirnir flýi eða sleppi úr haldi.

Erfitt að dæma ISIS-liða heima fyrir

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að forsvarsmenn heimaríkja þessa manna og kvenna óttast að taka við þeim. Sú helsta er að þó að talið sé næsta víst að umræddir aðilar hafi gengið til liðs við Íslamska ríkið, er erfitt að sanna það fyrir dómi vegna skorts á sönnunargögnum. Reynslan sýnir að mjög erfitt er að sakfella menn fyrir voðaverk sem þeir frömdu mögulega í Sýrlandi og Írak og jafnvel er erfitt að sanna að þeir hafi í raun gengið til liðs við hryðjuverkasamtök. Það er ekki ólöglegt að fara til Sýrlands eða Írak.

Þar að auki er stundum ómögulegt að opinbera sönnunargögn sem hafa verið fengin með njósnum eða öðrum hætti, þar sem slíkar uppljóstranir gætu komið upp um heimildarmenn og aðferðir leyniþjónusta.

Þó hinir meintu vígamenn yrðu sakfelldir, er ekki vilji til til staðar til að halda þeim í almennum fangelsum þar sem þeir gætu dreift boðskap sínum og jafnvel fengið aðra fanga til að aðhyllast samtök eins og ISIS. Ríki um allan heim berjast nú gegn því að ríkisborgarar þeirra verði sendir aftur heim frá Sýrlandi. Lög hafa verið sett sem gerir yfirvöldum kleift að svipta vígamenn ríkisborgararétti, eins og til dæmis í Bretlandi.


Tengdar fréttir

Telja að ákvörðun Trump muni efla ISIS

Forsvarsmenn samtaka Kúrda sem barist hafa gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS í Sýrlandi telja að ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta, um að kalla alla hermenn Bandaríkjanna frá Sýrlandi heim, muni leiða til tómarúms sem geri það að verkum að ISIS geti safnað fyrri kröftum.

Ástralar svipta ISIS-liða ríkisfangi

Yfirvöld Ástralíu hafa ákveðið að svipta mann sem talinn er hafa verið hátt settur innan Íslamska ríkisins ríkisfangi.

Mennirnir sem enginn vill fá heim

Yfirvöld vestrænna ríkja vinna hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að vígamenn laumi sér aftur heim og þá er heldur ekki vilji til að sækja þá vígamenn sem hafa verið handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×