Erlent

Mueller-skýrslan væntanleg fyrir augu almennings

Andri Eysteinsson skrifar
Getty/Chip Somodevila
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna áætlar að skýrsla Robert Mueller um Rússarannsóknina svokölluðu verði gerð opinber um miðjan apríl, „ef ekki fyrr.“ Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William „Bill“ Barr greindi frá þessu í bréfi til háttsettra þingmanna í dag. CNN greinir frá.

Í bréfi sínu sagði Barr skýrsluna vera tæplega 400 blaðsíður að lengd og á þeim blaðsíðum setji Mueller fram niðurstöður, greiningar og ályktanir sínar. Dómsmálaráðherrann bauðst einnig til þess að koma fyrir þingið og ræða skýrsluna og stakk hann upp á Verkalýðsdeginum 1. maí til að funda með öldungadeild þingsins og 2. maí fyrir fund með fulltrúadeildinni.

Síðastliðinn sunnudag gaf Barr út úrdrátt úr skýrslunni. Þar kom fram að ekki væri hægt að sýna fram á samsæri kosningaskrifstofu Donald Trump og rússnesku ríkisstjórnarinnar fyrir forsetakosningar 2016. Andstæðingar forsetans urðu fyrir miklum vonbrigðum með þann hluta skýrslunnar en margir voru efins um að sú mynd sem Barr dró fram í úrdrættinum væri rétt.

Barr sagði í bréfi sínu að fljótlega muni allir hafa möguleika á því að lesa skýrsluna. Þó verður búið að afmá viðkvæmar upplýsingar úr skýrslunni þegar hún verður gefin út.


Tengdar fréttir

Segir túlkun Barr á Mueller-skýrslunni bæði hrokafulla og yfirlætislega

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings segir að samantekt William Barr dómsmálaráðherra á skýrslu Robert Mueller sé bæði hrokafull og yfirlætisleg. Hún krefst þess að Barr veiti þingmönnum aðgang að skýrslunni svo þeir geti lagt eigið mat á efni hennar.

Segja Barr ekki vera hlutlausan og vilja opinbera skýrslu Mueller

Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrataflokksins í fulltrúdeild Bandaríkjaþings, og Chuck Schumer, leiðtogi flokksins í öldungadeildinni, segja nauðsynlegt að opinbera skýrslu Robert Mueller, sérstaks rannsakanda Dómsmálaráðuneytisins, um Rússarannsóknina svokölluðu í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×