Indónesísk kona, sem sökuð var um að hafa myrt Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, var látin laus úr fangelsi eftir að fallið var frá ákærum á hendur henni. BBC greinir frá.
Konunni, Siti Aisyah, var gefið að sök að hafa makað taugaeitrinu VX í andlit Kims á flugvellinum í Kuala Lumpur árið 2017. Hún og önnur kona sem sökuð var um aðild að morðinu, hin víetnamska Doan Thi Huong, hafa ætíð neitað sök og sögðust hafa staðið í þeirri trú að þær væru þátttakendur í einhvers konar sjónvarpshrekk.
Saksóknari tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að falla frá ákærunni á hendur Aisyah, sem hefði getað átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Hún sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að hún væri afar ánægð með framgang mála og hefði jafnframt ekki búist við því að fallið yrði frá ákærunni.
Haft er eftir fréttaritara BBC að svo virðist sem sannanir gegn Aisyah í málinu hafi verið veikari en gegn Huong.
Meintur morðingi Kim Jong-nam látinn laus

Tengdar fréttir

Réttað yfir meintum morðingjum Kim Jong-nam í nóvember
Dómstóll í Malasíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn gegn tveimur konum sem sakaðar eru um að hafa myrt Kim Jong-nam séu nægjanleg til að réttarhöld geti farið fram.

Taugaeitur notað til að myrða hálfbróður Kim Jong-un
Bandarísk yfirvöld ætla að beita Norður-Kóreu frekari refsiaðgerðum vegna morðsins.

Leita vitna að morðinu á Kim
Kim Jong-nam lést í febrúar mánuði 2017 á alþjóðaflugvellinum í Kúala Lúmpur, höfuðborg Malasíu. Við rannsókn málsins fundust leifar af taugaeitrinu VX á andliti Kim.