Erlent

Bandaríkjamenn segja enga ástæðu til að kyrrsetja flugvélar Boeing

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvélarnar hafa ekki verið kyrrsettar í Kanada en yfirvöld þar segja málið í skoðun.
Flugvélarnar hafa ekki verið kyrrsettar í Kanada en yfirvöld þar segja málið í skoðun. AP/Darryl Dyck

Flugmálayfirvöld Bandaríkjanna, FAA, segja enga ástæðu til að kyrrsetja 737 MAX 8 og 9 flugvélar bandaríska fyrirtækisins Boeing. Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að skoðun starfsmanna hennar hafi ekki varpað ljósi á galla á frammistöðu flugvélanna eða vélræna galla.

Þar að auki hafi flugmálayfirvöld annarra ríkja ekki geta sýnt fram á neitt slíkt til að réttlæta það að flugvélarnar hafa verið kyrrsettar víða um heim.

Þó er tekið fram að leiði rannsókn á flugslysinu í Eþíópíu í ljós ástæðu til að kyrrsetja flugvélarnar muni FAA grípa umsvifalaust til aðgerða.

AP fréttaveitan segir FAA vera undir miklum þrýstingi heima fyrir. Stjórnmálamenn, samtök hagsmunaaðila og fagaðilar hafi kallað eftir því að flugvélarnar verði kyrrsettar.

Flugvél Ethiopian Airlines, sem var af gerðinni Boeing 737 MAX 8, hrapaði skömmu eftir flugtak um helgina. Alls fórust 157 manns í slysinu. Þetta var annað mannskæða flugslysið á innan við fimm mánuðum þar sem umrædd flugvélagerð kemur við sögu, en 189 manns fórust þegar vél Lion Air hrapaði í Jövuhafi í október, einnig skömmu eftir flugtak.

Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, sem bannaði allt flug umræddra flugvéla í lofthelgi Evrópu í dag, tók fram í tilkynningu að enn væri of snemmt að draga ályktanir um orsakir flugslyssins í Eþíópíu. Icelandair tilkynnti einnig í dag að félagið hafi ákveðið að taka allar Boeing 737 MAX 8 vélar sínar úr rekstri, þrjár talsins, um óákveðinn tíma. Var það gert eftir að Bretar bönnuðu flugvélarnar í lofthelgi Bretlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.