Erlent

Boeing kyrrsetur allar 737 Max þotur

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bandaríkjamenn hafa kyrrsett Boeing 737 Max vélarnar.
Bandaríkjamenn hafa kyrrsett Boeing 737 Max vélarnar. vísir/getty
Boeing flugvélaframleiðandinn hefur ákveðið að kyrrsetja allar 737 Max vélar sem framleiddar hafa verið eftir að rannsakendur flugslyssins í Eþíópíu komust að því að mikil líkindi eru með því slysi og fyrra slysi Lion Air sem fórst undan ströndum Jövu í október.

Hingað til höfðu bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) haldið að sér höndum og ekki bannað notkun vélanna þrátt fyrir að fjöldi ríkja, þar á meðal Ísland hafi gert það.

Bandaríkjamenn fylgdu þá í kjölfar annarra ríkja þegar í ljós kom að slysin tvö megi líklega rekja til sama atriðis. Skömmu síðar ákvað Boeing að kyrrsetja flotann eins og hann leggur sig, en 371 þota hefur verið smíðuð af þessari gerð.

Í yfirlýsingu frá Boeing kom fram að fyrirtækið hafi enn fulla trúa á öryggi 737 Max-vélanna. Það hafi engu að síður ákveðið að kyrrsetja vélarnar til að gæta „fyllstu varúðar“ og til að fullvissa almenning um öryggi þeirra, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

FAA komst að því að líkindi væru á milli slyssins í Eþíópíu og annars sem átti sér stað í Indónesíu í október. Þar fórust 189 manns. Greint hefur verið frá því að bandarískir flugmenn hafi kvartað undan vandamálum við að stýra 737 Max-vélunum í flugtaki. Þau vandamál eru talin líkjast þeim sem leiddu til slyssins í Indónesíu. Eþíópíska vélin hrapaði einnig skömmu eftir flugtak.

„Við erum að gera allt sem við getum til að skilja orsakir slysanna í samstarfi við rannsakendur, að bæta öryggi og tryggja að þetta endurtaki sig ekki,“ segir Dennis Muilenburg, forseti, forstjóri og stjórnarformaður Boeing.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Bandaríkjamenn segja líkindi með flugslysum

Ný gögn sem bárust flugmálayfirvöldum Bandaríkjanna, FAA, sýna líkindi á milli flugslyssins í Eþíópíu á sunnudaginn og flugslysi í Indónesíu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×