Enski boltinn

Sterk Southampton áhrif í tveimur flottum útisigrum í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar

Sadio Mane fagnar öðru af mörkum sínum í gær.
Sadio Mane fagnar öðru af mörkum sínum í gær. Getty/Chris Brunskill

Southampton er ekki beint lið sem þú tengir við Meistaradeildina enda lið sem er að berjast fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni þessa dagana.

Menn eru samt að tala um Southampton eftir sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. Ástæðan er frábær frammistaða leikmanna sem voru einu sinni í herbúðum enska félagsins.

Tveir af athyglisverðustu sigrum sextán liða úrslitanna voru 4-1 sigur Ajax á Real Madrid á Santiago Bernabéu í Madrid og 3-1 sigur Liverpool á Bayern München á Allianz Arena í München.

Í báðum þessum leikjum voru fyrrum leikmenn Southampton liðsins í aðalhlutverki.Serbinn Dusan Tadic lék í fjögur ár með Southampton frá 2014 til 2018. Hollenska félagið Ajax keypti hann frá Southampton í júní síðastliðnum.

Tadic átti stórkostlegan leik á Bernabéu þar sem Ajax kom flestum á óvart með sannfærandi sigri á þreföldum Evrópumeisturum. Tadic skoraði eitt mark sjálfur og átti einnig tvær stoðsendingar.

Fyrrum leikmenn Southampton voru líka í aðalhlutverki í 3-1 sigri Liverpool á Bayern München í gærkvöldi. Þar voru á ferðinni þeir Virgil van Dijk og Sadio Mané.

Sadio Mané skoraði tvö mörk í leiknum þar af það fyrra eftir stoðsendingu frá Virgil van Dijk. Van Dijk skoraði síðan mjög mikilvægt mark sjálfur þegar hann kom Liverpool í 2-1 í seinni hálfleiknum.
Liverpool keypti Sadio Mané frá Southampton í júní 2016 en Senegalinn hafði leikið með Southampton í tvö tímabil.

Liverpool keypti Virgil van Dijk í janúar 2018 en miðvörðurinn öflugi spilaði með Southampton frá 2015 til 2017.

Kaupin á Sadio Mané og Virgil van Dijk eru bæði í hópi þeirra bestu hjá félaginu undanfarin ár.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.