Erlent

Leita manns í tengslum við árásina í Utrecht

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla birti þessa mynd af manninum sem lýst er eftir.
Lögregla birti þessa mynd af manninum sem lýst er eftir. Mynd/Lögreglan í Utrecht
Lögregla í Utrecht lýsir eftir manni á fertugsaldri í tengslum við mannskæða skotárás í hollensku borginni Utrecht í morgun. Að minnsta kosti einn lést í árásinni og sex eru særðir.

Maðurinn, hinn 37 ára Gökmen Tanis, er fæddur í Tyrklandi. Í tilkynningu frá lögreglu er almenningur beðinn um að tilkynna strax um ferðir mannsins, sjáist til hans, en fólki er ráðið frá því að nálgast hann.

Með tilkynningunni fylgir mynd af manninum sem virðist tekin úr öryggismyndavél í sporvagni.

Árásarmaðurinn er enn á flótta undan lögreglu eftir að hann hóf skothríð um klukkan 9:45 að íslenskum tíma, eða 10:45 að hollenskum tíma, á brautarstöð við 24 Oktoberplein. Lögregla hefur ekki staðfest að maðurinn sem lýst er eftir sé grunaður um að hafa framið árásina.

Sjá einnig: Óþægilegt að vita af vinkonu á vettvangi árásarinnar í Utrecht



Mikill viðbúnaður er í Utrecht en lögregla útilokar ekki að um hryðjuverk sé að ræða. Þá hefur viðbúnaðarstig verið aukið í Hollandi, þar á meðal í skólum og á flugvöllum.

Recep Erdogan, forseti Tyrklands, hefur verið gagnrýndur fyrir að sýna stuðningsmönnum sínum á kosningafundum hluta af myndbandi sem ástralskur hryðjuverkamaður tók upp þegar hann skaut um fimmtíu manns til bana og særði tugi til viðbótar í tveimur moskum í Christchurch á Nýja-Sjálandi. Yfirvöld á Nýja-Sjálandi hafði hvatt fólk til að deila ekki myndefninu sem fór engu að síður í mikla dreifingu á netinu.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að með því að sýna myndefnið frá morðingjanum hafi vakað fyrir Erdogan að hleypa stuðningsmönnum sínum kapp í kinn fyrir sveitarstjórnarkosningar síðar í þessum mánuði og fordæma andúð á múslimum í heiminum og viðbrögð vestrænna ríkja við henni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×