Erlent

Fríaði Kim af ábyrgð á dauða bandarísks námsmanns

Kjartan Kjartansson skrifar
Fundi Trump og Kim var slitið fyrr en til stóð þar sem ekkert samkomulag náðist um afkjarnavopnun og afléttingu refsiaðgerða.
Fundi Trump og Kim var slitið fyrr en til stóð þar sem ekkert samkomulag náðist um afkjarnavopnun og afléttingu refsiaðgerða. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti kom Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, til varnar þegar fréttamenn reyndu að spyrja þann síðarnefnda út í dauða bandarísks námsmann sem var beittur ofbeldi í haldi Norður-Kóreumanna. Sagði Trump trúa því að Kim hafi ekki vitað af meðferðinni á námsmanninum.

Otto Warmbier lést skömmu eftir að var fluttur til Bandaríkjanna frá Norður-Kóreu árið 2017. Hann var 22 ára gamall. Fjölskylda hans segir að hann hafi verið pyntaður á hrottalegan hátt þegar hann sat í norður-kóresku fangelsi. Hann var í dái þegar hann kom til Bandaríkjanna en hann hafði orðið fyrir alvarlegum heilaskaða í haldi Norður-Kóreumanna.

„Ég trúi ekki að hann hefði leyft því að gerast. Það var bara ekki honum til hagsbóta að leyfa því að gerast,“ sagði Trump þegar fréttamenn beindu spurningu um dauða Warmbier að Kim á leiðtogafundi þeirra í Hanoi í Víetnam.

Fullyrti Trump að Kim liði illa vegna dauða Warmbier sem var handtekinn og sakaður um að vera bandarískur njósnari þegar hann var í skipulagðri ferð í Norður-Kóreu í desember árið 2015, að sögn Washington Post.

„Hann segir mér að hann hafi ekki vitað af því og ég tek orð hans trúanleg,“ sagði Trump og benti á að margt fólk væri í fangelsum í Norður-Kóreu og að þau væri harðneskjulegir staðir þar sem slæmir hlutir ættu sér stað.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump hefur komið erlendum alræðisherrum til varnar opinberlega. Á fundi með Vladímír Pútín Rússlandsforseta í Helsinki í fyrra tók Trump neitanir Pútín um að hann hefði reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016 trúanlegri en bandarískar leyniþjónustustofnanir.

Á meðan bandaríska leyniþjónustan taldi svo að líkur væru á því að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hefði skipað fyrir um morðið á Jamal Khashoggi reyndi Trump ítrekað að gera lítið úr mögulegri ábyrgð ráðamanna í Ríad á dauða blaðamannsins. Í báðum þessum tilfellum vitnaði Trump til þess að erlendu leiðtogarnir hefðu neitað því að þeir bæru ábyrgð.


Tengdar fréttir

Otto Warmbier er látinn

Bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier, sem var sleppt úr haldi norður-kóreskra stjórnvalda í síðustu viku, eftir að hafa verið dæmdur í fimmtán ára nauðungarvinnu, er látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×