Erlent

„Kærustur“ R. Kelly koma honum til varnar og skella skuldinni á foreldra sína

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Joycelyn Savage og Azriel Clary mæta í réttarsal vegna máls R. Kelly í febrúar.
Joycelyn Savage og Azriel Clary mæta í réttarsal vegna máls R. Kelly í febrúar. Getty/Scott Olson

Tvær konur sem búa með bandaríska tónlistarmanninum R. Kelly koma honum til varnar í viðtali á CBS-sjónvarpsstöðinni, sem sýnt verður í dag. Fjölskyldur kvennanna hafa sakað R. Kelly um að halda þeim nauðugum og heilaþvegið þær.



Sjá einnig: Tárvotur R Kelly þvertekur fyrir að hafa beitt konur ofbeldi: „Þetta er ekki ég“

R. Kelly kynntist konunum, Azriel Clary og Joycelyn Savage, þegar þær voru undir lögaldri. Þær eru nú 21 og 23 ára en Clary sagði í viðtalinu að R. Kelly hefði staðið í þeirri trú að hún væri orðin átján ára þegar þau hittust fyrst.

Hún heldur því jafnframt fram að foreldrar sínir hafi hvatt hana til að segjast vera eldri en hún var til að komast í mjúkinn hjá Kelly. Savage tók í sama streng og sagði foreldra sína einnig hafa hvatt sig til að hefja samband við tónlistarmanninn í gróðaskyni.



„Foreldrar okkar beggja eru að reyna að afla sér peninga og  svindla. [..] Og þau eru bara í miklu uppnámi.“



Brot úr viðtalinu má sjá hér að neðan.

Foreldrar Clary og Savage halda því fram að Kelly hafi heilaþvegið dætur þeirra og haldi þeim nauðugum á heimili sínu. Í yfirlýsingu sem lögmenn foreldranna sendu frá sér í gær kemur fram að þau hafi aldrei beðið um eða þegið fé frá Kelly. Þá þvertaka þau einnig fyrir það að hafa selt R. Kelly dætur sínar, líkt og hann hélt fram í viðtali við CBS í gær.



Kelly hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum en þrjár þeirra voru undir lögaldri þegar hann á að hafa brotið gegn þeim. Hann lýsti sig saklausan og sagði ásakanirnar fáránlegar í viðtalinu í gær.



Þá var hann handtekinn og fangelsaður í annað sinn á skömmum tíma í gærkvöldi vegna vanskila á meðlagi. Hann skuldar fyrrverandi eiginkonu sinni, Andreu Kelly, ríflega nítján milljónir króna í meðlag með börnum þeirra.


Tengdar fréttir

R. Kelly heldur fram sakleysi sínu

Tónlistarmaðurinn R. Kelly hafnar öllum ásökunum í sinn garð og heldur fram sakleysi sínu en Kelly hefur verið ákærður fyrir tíu kynferðisbrot, þar af níu gegn stúlkum undir lögaldri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×