Íslenski boltinn

Viktor með glæsimark í sigri ÍA

Viktor bættist í leikmannahópinn á Skaganum í vetur
Viktor bættist í leikmannahópinn á Skaganum í vetur mynd/ía
ÍA hafði betur gegn Leikni í fyrsta leik liðanna í Lengjubikar karla þennan veturinn. Leikið var í Akraneshöllinni.

Viktor Jónsson, sem kom til ÍA frá Þrótti eftir síðasta tímabil, kom ÍA yfir með marki af dýrari gerðinni á 25. mínútu. Hann tók boltann á lofti og setti hann beint í netið, óverjandi fyrir Eyjólf Tómasson í Leiknismarkinu.

Litlu munaði að Sævar Atli Magnússon jafnaði fyrir Leikni undir lok fyrri hálfleiks en skalli hans endaði í þverslánni.

ÍA sigldi sigrinum heim í síðari hálfleik og Hörður Ingi Gunnarsson gulltryggði hann á lokamínútu venjulegs leiktíma, lokastaðan 2-0 fyrir ÍA.

Í vetur var tekin upp ný regla hjá alþjóðayfirvöldum knattspyrnunnar um að þegar boltinn færi upp í þakið þegar spilað væri innanhúss þá ætti að dæma dómarakast. Samkvæmt Twittersíðu ÍA voru hvorki minna né meira en fimm slík í fyrri hálfleik leiksins.

Liðin leika í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins. ÍA fer á toppinn með sigrinum, upp fyrir Stjörnuna á markatölu en Garðbæingar unnu Grindavík fyrr í vikunni. Með þeim í riðlinum eru líka Magni og Þór sem mætast í Boganum á Akureyri mánudaginn næsta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×